Ekkert betra en sælan í Árneshreppi

Elsa í Borgarnesi.
Elsa í Borgarnesi. Ljósmynd/ Eydís Glóð Guðlaugsdóttir

Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, fréttamaður RÚV á Vesturlandi og Vestfjörðum, þekkir landshlutana vel. Hún ólst upp á Akranesi, býr í Borgarnesi og ferðast reglulega um Vestfirði þaðan sem hún flytur fréttir.  

„Það var mjög gott að vera barn uppi á Skaga, þar er góð nálægð við náttúruna; Langisandur er svo síbreytilegur og það var hægt að hafa ofan af fyrir sér í sjávarsíðunni löngum stundum,“ segir Elsa María um heimabæ sinn. 

Áttu þér uppáhaldsstað fyrir vestan?

„Það er úr vöndu að ráða. Ég bý núna í Borgarnesi og er orðin mjög veik fyrir Borgarfirði, hann er svo margslunginn og býður upp á svo margar náttúruperlur til þess að njóta. Ég er ekki búin að uppgötva þær allar. Norðurárdalur, Barnafoss og Hraunfossar, Húsafell og Langjökull. Langflest þakið hrauni og birkikjarri. Svo mikill fjölbreytileiki næst í Borgarfirði þar sem nýtt rómantískt landslagsmálverk birtist við hvert fótmál.“

Elsa við störf við Arnarstapa í þjóðgarðinum Snæfellsjökli.
Elsa við störf við Arnarstapa í þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Ljósmynd/Jón Bjarnarson.

En á Vestfjörðum?

„Það verður að viðurkennast að ég er nokkuð hlutdræg, en ég er ættuð norðan úr Árneshreppi og veit ekkert betra en að vera þar í sælunni. Grófgerð fjöllin og stórgrýtt fjaran þakin rekaviði. Sagan, náttúran og andinn eru svo einstök þar. Í hreppnum eyddi ég mínum uppáhaldsstundum sem barn og geri enn nú á fullorðinsárum Mér finnst ég í raun sífellt vera að enduruppgötva hvað þetta er einstakur staður.“

Reykjaneshyrna og rekaviður í Árneshreppi.
Reykjaneshyrna og rekaviður í Árneshreppi. Ljósmynd/Elsa María Guðlaugs Drífudóttir


Kom eitthvað á óvart við Vestfirði eftir að þú fórst að flytja fréttir þaðan?

„Ég veit ekki hvort ég geti sagt að eitthvað hafi komið mér mikið á óvart. Ég hlakkaði mjög til þess að kynnast þessum landshluta betur og það hefur verið stórkostleg reynsla. Ég held að einn skemmtilegasti eiginleiki samfélagsins fyrir vestan er hversu frjótt það er. Vestfirðingar eru einstaklega hugvitsamir og ekki síður eljusamir. Enda sýnir fjölbreytileikinn í samfélagi og atvinnulífi það glöggt.“

Áttu þér uppáhaldssundlaug?

„Krossneslaug í Árneshreppi hlýtur þar vinninginn, hiklaust. Kúrir í fjörunni þar sem þú getur baðað þig með Húnaflóa og Reykjaneshyrnu fyrir augunum. Þessi sundlaug var byggð á sjötta áratug síðustu aldar og þjónaði sem eins konar félagsmiðstöð um þó nokkurt skeið þar sem ungmennin í hreppnum spiluðu tónlist og skemmtu sér saman. Krossneslaug á eflaust sérstakan stað í hjörtum flestra Strandamanna.“

Krossneslaug í Árneshreppi er í uppáhaldi hjá Elsu.
Krossneslaug í Árneshreppi er í uppáhaldi hjá Elsu. Ljósmynd/Guðlaugur Maríasson


Hvaða veitingastað má fólk ekki láta fram hjá sér fara?

„Sjávarpakkhúsið í Stykkishólmi svíkur ekki, ef þér þykir sjávarfang gott. Ég legg leið mína yfirleitt alltaf þangað ef ég hef færi á og fæ mér að borða þegar ég er í Hólminum.“

Hvar er nauðsynlegt að koma við þegar keyrt er um Vesturland og inn á Vestfirði?

„Undrin eru svo mörg sem ég gæti talið upp. Ég held það sé algjört lykilatriði að hafa nægan tíma og leyfa sér að stoppa eða bregða út af leið við hvert tækifæri. Ef þið hafið til dæmis ekki farið fyrir Klofning um Fellsströnd og Skarðsströnd í Dölunum, þá mæli ég með því (ég gerði það í fyrsta skipti í fyrra). Eins að gefa sér tíma til þess að koma við í Ólafsdal í Gilsfirði, þar sem fyrsti búnaðarskóli landsins var eitt sinn starfrækur, stofnaður af Torfa Bjarnasyni 1880. Þar er nú mikið uppbyggingarstarf að eiga sér stað. Það viðurkennist svo hér og nú að mér þykir Gufudalssveitin með þeim fallegri. Náttúran þar hefur einhvern blæ sem ég hef ekki fundið annars staðar. Gefið ykkur tíma til að leggja úti í kanti og anda að ykkur loftinu og taka inn umhverfið. Það þarf ekki að vera neitt tiltekið fyrir augum, annað en landslagið.“

Sólarlagið við mynni Gilsfjarðar, horft út eftir Skarðsströnd í Dölunum.
Sólarlagið við mynni Gilsfjarðar, horft út eftir Skarðsströnd í Dölunum. Ljósmynd/Elsa María Guðlaugs Drífudóttir

Ertu byrjuð að skipuleggja sumarfríið?

„Ég ætla mér meðal annars í ferð með systkinum mínum og mágkonu sem hefur verið í bígerð í vetur. Við leggjum af stað af Akranesi og förum í Stykkishólm þar sem við eyðum einni nótt. Síðan förum við með Baldri út í dásamlegu Flatey á Breiðafirði og tjöldum. Þaðan förum við svo yfir á Brjánslæk og keyrum þá um sunnanverða Vestfirði. Rauðisandur, Látrabjarg, Vatnsfjörður. Okkur langar að fara Ketildali og auðvitað í sund hvar sem heitt vatn finnst.“

Drangaskörðin í miðnæturgöngu í Árneshreppi.
Drangaskörðin í miðnæturgöngu í Árneshreppi. Ljósmynd/Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
mbl.is