Engin Októberfest 2021

Um sex milljónir sækja Októberfest í Bæjaralandi ár hvert.
Um sex milljónir sækja Októberfest í Bæjaralandi ár hvert. AFP

Hin árlega bjórhátíð Bæjara, Októberfest, sem fram fer í München, hefur verið aflýst annað árið í röð sökum ótta við frekari útbreiðslu COVID-19. Ríkisstjóri Bæjaralands, Markus Söder, tók þessa erfiðu ákvörðun í dag og var þungt í honum hljóðið.

Söder sagði: „Í bjórtjöldunum á stórum hátíðum líkt og Októberfest, þar sem margir koma saman, þá vitum við að það mun reynast erfitt að halda fjarlægðartakmörkunum og grímuskyldu. Allar nauðsynlegar öryggisráðstafanir varðandi veiruna verður nánast ómögulegt að framkvæma.“

Þessi fornfræga hátíð sem haldin er síðustu 2 vikurnar í september til og með fyrstu helginni í október ár hvert, er stærsta hátíð Þjóðverja. Fyrsta októberhátíðin var haldin árið 1810 til að fagna brúðkaupi Lúðvíks krónprins frá Bæjaralandi, hátíðin tókst vel og síðar var ákveðið að hún yrði að árlegum viðburði.

Í þessi 211 ár sem liðin eru frá fyrstu hátíðinni hefur aðeins þurft að hætta við hana 25 sinnum. Því miður bættist við 26 skiptið í dag.

Söder ríkisstjóri bætti við að það yrði hræðilegt fyrir vörumerkið ef hátíðin yrði örsök nýrrar bylgju af smitum. Hann horfir bjartsýnn til ársins 2022 og segist eiga von á því að sú hátíð verði sú stærsta frá upphafi þar sem að: „Fólk er orðið mjög svangt og þyrst.“

Á hverju ári sækja um sex milljónir manna hátíðina og er þetta vinsælasta hátíð Þýskalands.

mbl.is