Ætla að notast við súrefni síðustu þúsund metrana

Sigurður og Heimir í morgunkaffi í búðum 2 á Everest.
Sigurður og Heimir í morgunkaffi í búðum 2 á Everest. Ljósmynd/Instagram

Fjallgöngumennirnir Heimir Fannar Hallgrímsson og Sigurður Bjarni Sveinsson ætla að notast við aukasúrefni síðustu þúsund metrana að toppi Everest-fjalls. Heimir og Sigurður eru komnir niður í grunnbúðirnar eftir hæðaraðlögun í búðum tvö. Þeir bíða eftir hentugum veðurglugga til að fara aftur upp í búðir þrjú og stefna að því að komast á tindinn fyrir 20. maí ef veður leyfir. 

Búðir tvö liggja í 6.400 metra hæð og dvöldu þeir þar í þrjár nætur. Dagana nýttu þeir í hæðaraðlögun og fóru upp í 7.000 metra hæð.  

„Af hverju fórum við ekki hærra í hæðaraðlögun þar sem Everest er 8.848,68 metra hátt? Það er vegna þess að þegar veðurgluggi opnast á tind Everest þá munum við klifra upp í búðir 3 (7.200 m hæð) og taka súrefni frá þeirri hæð og upp á topp. Ástæða þess að við tökum súrefni frá þeirri hæð er að þá nálgumst við svokallað „death zone“ sem er miðað við 8.000 m hæð. Í þeirri hæð er súrefnið orðið svo lítið að líkaminn/frumur fara deyjandi,“ skrifa Heimir og Siggi í færslu á Instagram. 

Um 200 manns hafa farið á tind Everest án þess að notast við aukasúrefni en í heildina hafa um 5.000 manns farið á tindinn. Mikill meirihluti Everest-fara notar því aukasúrefni til þess að komast á leiðarenda. Fjallgöngukonan Vilborg Arna Gissurardóttir notaði til dæmis aukasúrefni þegar hún kleif tindinn árið 2017. 

Í gær var greint frá því að 17 Everest-farar hefðu greinst með Covid. Heimir og Sigurður sögðu í samtali við mbl.is að þeir héldu sig til hlés frá öðrum Everest-förum og færu varlega. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert