„Ég varð að finna eitthvað að gera“

Birna á fjallaskíðum. Fjallaskíðin hennar eru frá Advanced Shelter og …
Birna á fjallaskíðum. Fjallaskíðin hennar eru frá Advanced Shelter og koma þrír Íslendingarnir að hönnuninni. Ljósmynd/Aðsend

Birna Baldursdóttir, íþróttakennari á Akureyri, byrjaði að stunda útivist af miklum krafti í fyrra en þá byrjaði hún á fjallahjóli. Áhuginn á því að hreyfa sig í náttúrunni jókst bara og keypti hún sér bæði fjallaskíði og gönguskíði í vetur. Hún er alltaf í mjög góðum félagsskap og fór nýlega í þyrluskíðaferð með vinkonum sínum í hópnum Gæra og lúxus. 

„Ég er pínu ofvirk. Ég var náttúrulega alltaf að keppa, þurfti eiginlega að finna mér eitthvað annað. Ég er fertug að verða 41 árs. Ég ætla eiginlega ekkert að telja síðasta ár með af því þá var Covid,“ segir Birna og hlær þegar hún er spurð út í ástæðu þess að hún tók upp á því að stunda útivist af kappi. „Ég var í landsliðinu í íshokkí í 15 ár eða eitthvað og í blaki í 17 ár og í strandblaki líka.“

Auk þess sem keppnisferlinum var að ljúka spilaði það líka inn í að hún var skilin. „Ég er bara með strákana viku og viku, aðra vikuna er ég bara ein. Ég þarf ekki að þrífa húsið, þvo þvott, ég elda bara fyrir mig. Ég varð að finna eitthvað að gera, ekki var ég fara að vera hérna og horfa á sjónvarpið,“ segir Birna. 

Hún segir Akureyri algjöra útivistarparadís. „Ég hjóla heiman frá mér inni í Kjarnaskóg og inn í Naustaborgir. Ég gat gengið inn á golfsvæðið og farið á gönguskíði á tímabili. Maður er fimm mínútur upp í fjall. Maður er svona að átta sig á því núna hvað þetta er frábært svæði.“

Fjallahjólamennska kveikti útivistaráhugann.
Fjallahjólamennska kveikti útivistaráhugann. Ljósmynd/Aðsend

Byrjaði á fjallahjóli

„Það var ein vinkona mín sem dró mig út að hjóla á fjallahjóli. Ég keypti hjól síðasta sumar og þar smitaðist ég af náttúrunni,“ segir Birna sem hafði aldrei trúað því fyrir nokkrum árum að hún væri orðin svona mikil fjallageit eins og raun ber vitni. Hún fer á fjallahjól, stundar fjallaskíði, gönguskíði. „Þetta eru allt íþróttir sem ég var lítið í. Ég var alltaf á snjóbretti sem barn en keypti fjallaskíði og gönguskíði í desember. Ég keypti hjólið síðasta sumar.“

Birna stundaði alltaf liðsíþróttir og kom það henni á óvart hversu mikið hún fékk út úr því að vera á fjallaskíðum.

„Sama vinkona og vinkvennahópur er á fjallaskíðum þannig að ég gat ekki verið minni manneskja. Ég var alltaf að ganga á snjóbrettaskónum með þeim í fyrra í Covid. Það var orðið svo erfitt þannig ég lét til leiðast og fékk mér hinar græjurnar og sé sko ekki eftir því. Maður má ekki sleppa því að prófa, það er eiginlega svolítið mikilvægt að prófa. Auðvitað rýkur maður ekki eins og ég og kaupir græjurnar án þess að prófa en það er bara týpískt ég. Ég er líka með félagsskapinn í kringum mig, það hjálpaði.“

Vinkvennahópur Birnu fer í hjóla- og fjallaskíðaferðir saman.
Vinkvennahópur Birnu fer í hjóla- og fjallaskíðaferðir saman. Ljósmynd/Aðsend

Það fer mikið fyrir vinkvennahópi Birnu og eiga þær allar gyllta snjógalla sem fara ekki fram hjá nokkrum manni. Gæra og lúxus heitir hópurinn. Birna og vinkonur hennar fóru í æðislega þyrluskíðaferð í lok apríl. Þær vöktu mikla athygli á samfélagsmiðlum í gullgöllunum í ferðinni. Lögmaðurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson var með í ferðinni og birti mynd af sér með stuðpinnunum. Hópurinn fékk gríðarlega gott veður í ferðinni. 

„Við erum búnar að ganga mikið sjálfar í nágrenninu á fjallaskíðunum og auðvitað erum við mikið að fara í góðu veðri og svona en við höfum aldrei upplifað þetta áður.“ 

Þyrluskíðaferðin var algjör draumur.
Þyrluskíðaferðin var algjör draumur. Ljósmynd/Aðsend

Birna segir auðvelt að kynnast nýju fólki þegar fólk fer saman í hópi að stunda útivist. Hún hefur kynnst mörgum í gegnum hjólahóp sem heitir Kvenduro. 

„Það eru allir velkomnir þar og þar hef ég kynnst mörgum. Þá er líka auðveldara að hringja og spyrja hvort einhver nenni að koma út að hjóla. Kannski hittir maður einhvern sem maður er ekki vanur að hanga með. Svo er Akureyri lítill bær og þá er þetta kannski auðveldara hér. Maður þekkir alla. Ég veit hvort þú ert Akureyringur eða ekki. Þetta er kannski öðruvísi í borginni, ég veit það ekki,“ segir hún. 

Birna á fjallaskíðum.
Birna á fjallaskíðum. Ljósmynd/Aðsend

Einhvers staðar verður fólk að byrja

Birna segist oft heyra talað um að það sé erfitt að byrja. „Maður vill ekki vera lélegastur eða draga úr öðrum. En einhvers staðar verður maður að byrja. Það er alltaf einhver í hópnum sem mun hjálpa. Eins og með gönguskíðin, ég kunni ekki einu sinni að fara í græjurnar og var búin að kaupa þetta allt. Ein sem vann með mér byrjaði á að fara með mér einn hring. Svo fór önnur vinkona með mér næst.“

Golf býður upp á mikla útiveru.
Golf býður upp á mikla útiveru. Ljósmynd/Aðsend

Birna mælir með að skrá sig á námskeið og fá smá kennslu í leiðinni. „Ég fór á hjólanámskeið og hefði farið á gönguskíðanámskeið ef ég hefði ekki þessar vinkonur með mér. Svo er líka alveg gott að prófa að leigja græjurnar. Í staðinn fyrir að kaupa allt og svo endar það allt inni í geymslu. Það er bannað að kaupa eitthvað og nota það ekki,“ segir Birna sem fer eftir þessari reglu og notar allar útivistargræjurnar sem hún kaupir. 

Í sumar taka fjallahjólreiðar við skíðamennskunni. Hún fór á hjólanámskeið nýlega til þess að koma sér í form fyrir átökin í sumar. Hún finnur strax mun á sér en í fyrra byrjaði hún að stunda hjólreiðar án þess að vera í sérstöku hjólaformi. „Ég var vön því í kringum keppnisár mín að setja mér markmið, undirbúa og græja og gera. Ég finn að ég er enn þá þar. Mig langar að vera í ákveðnu formi og leyfi mér ekki endilega að svindla á því. Ég hef gaman af því að ögra sjálfri mér. En ég er ekki þessi týpa sem byrjar á götuhjóli og ætla að keppa af því ég finn að ég get ekki unnið, mér finnst erfitt að fara í þannig. En það er gaman að vera með,“ segir Birna sem heldur sig við fjallahjólið eins og er. Það er þó á óskalistanum að eignast götuhjól.  

mbl.is