Bjarga öðru Covid-sumri með Gleðibankanum

Katla Njálsdóttir, Andri Már Rúnarsson, Tinna Katrín Owen, Karla Aníta …
Katla Njálsdóttir, Andri Már Rúnarsson, Tinna Katrín Owen, Karla Aníta Kristjánsdóttir, Halldóra Elín Einarsdóttir og Hildur Kaldalóns Björnsdóttir standa að Gleðibankanum. Ljósmynd/Aðsend

Ungir frumkvöðlar í Verzlunarskóla Íslands ákváðu að búa til hið fullkomna sumarleikjasett fyrir ferðalagið í sumar. Hildur Kaldalóns Björnsdóttir segir fólk sjá fram á annað sumar á Íslandi og Gleðibankinn því tilvalinn í útilegur sumarsins. 

„Gleðibankinn er fyrirtæki sem var stofnað í frumkvöðlafræði í Verzlunarskóla Íslands. Við framleiðum sumarleikjapakka sem er tilvalinn til að kippa með í ferðalagið. Pakkinn kemur í góðum taupoka sem inniheldur brennibolta, frisbídisk, spilastokk, handgerð snúsnúbönd gerð úr endurunnum veiðarfærum og leikjahandbók,“ segir Hildur um afurð áfangans. 

„Sjálf hef ég farið í margar útilegur, bæði með fjölskyldum og vinum. Þá er fátt sem mér finnst skemmtilegra en að draga alla úr símunum og fara í leiki,“ segir Hildur. Með leikjasettinu fylgir bókin Einn leikur enn sem er með útskýringum á 80 leikjum og spilum sem henta við mismunandi tilefni. Bókinni er skipt í fimm kafla en þeir eru áhaldaleikir, leikir í bílnum, leikir í sundi, hópaleikir og spil. Það er góð blanda af nýjum leikjum og þessum gömlu góðu. 

Ljósmynd/Aðsend

Hópurinn fékk í fyrstu þá hugmynd að búa til borðspil. „Við vissum að við vildum framleiða vöru sem myndi nýtast fólki til afþreyingar og skemmtunar. Sömuleiðis vildum við gera vöru sem hentar íslensku sumri enda virðist allt stefna í annað Covid-sumar. Lokaniðurstaðan var því sumarleikjapakki með öllu því helsta sem þú þarft til að skemmta þér og þínum á ferðalögum um landið í sumar.“

Hildur segir leikina í bókinni henta öllum aldurshópum en að hennar mati er fólk aldrei of gamalt til þess að leika sér og segir alla hafa gott af því að vekja barnið í sjálfum sér. 

„Það gekk vel að safna leikjum í bókina en til þess rifjuðum við upp þá leiki sem við höfum farið í í gegnum árin. Það var meira mál að skrifa skýringar á leikjunum, enda margir þeirra með mismunandi reglum eða nöfnum eftir því hvar og hvenær fólk lærði leikina. Við leituðum bæði til foreldra og yngri fjölskyldumeðlima til að hafa úrvalið fjölbreytt. Einhverja leiki bjuggum við líka til,“ segir Hildur. 

„Mínir uppáhaldsleikir eru yfir, kýló og klappleikurinn. Það eru þeir leikir sem ég fer oftast í með fjölskyldunni eða vinahópnum. Þeir eru fullkomnir til að rífa upp orku og hrista hópa saman.“

Vinirnir í Versló sjá ekki fyrir sér að fara utan í sumar og á Gleðibankinn örugglega eftir að koma að góðum í íslenskri náttúru. „Í sumar ætlum við öll sem komum að Gleðibankanum að vinna en munum nýta þau frí sem við fáum til að ferðast og njóta. Það verður ekkert um utanlandsferðir í ár, eins og staðan er núna, en þá er bara um að gera að njóta landsins og þess sem það hefur upp á að bjóða.“

Hægt er að panta Gleðibankann í gegnum skilaboð á Facebook og Instagram og með tölvupósti á gledibank@gmail.com. 

View this post on Instagram

A post shared by @gledibankinn.ehf

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert