Opnar þrjá nýja veitingastaði í sumar

Ólafur Örn Ólafsson kemur að opnun þriggja nýrra veitingastaða á …
Ólafur Örn Ólafsson kemur að opnun þriggja nýrra veitingastaða á næstu misserum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á miðnætti tóku gildi nýjar sóttvarnareglur sem kveða meðal annars á um að afgreiðslutími veitingastaða lengist um klukkustund, frá klukkan 21 til klukkan 22. Gestir þurfa að hafa yfirgefið staðinn fyrir klukkan 23. Almennar fjöldatakmarkanir fara úr 20 í 50 manns en börn fædd 2015 og síðar verða áfram undanþegin. Tveggja metra reglan er enn í gildi.

Ólafur Örn Ólafsson, veitingamaður á vínstúkunni 10 sopum, segir að þær tilslakanir sem tóku gildi á miðnætti komi sér vel fyrir veitingafólk og skipti miklu máli í rekstri.

„Ég get ekki ímyndað mér annað en að allir veitingamenn gefi hver öðrum fimmu út af þessu,“ segir Ólafur.

.„Þetta er bara tímabært. Ekki bara fyrir okkur heldur fyrir fólk almennt. Maður finnur að fólk er orðið þyrst í félagsskap annarra og langar að fara á mannamót.“

Hann undirbýr sjálfur opnun þriggja nýrra veitingastaða á næstu misserum. Veitingastaðurinn Bruggstofan & Honkytonk verður opnaður á Snorrabraut 56 seinna í maí en þar mun verða reiddur fram amerískur grillmatur, að því er Ólafur tjáir blaðamanni.

Bruggstofan er samstarf 10 sopa og brugghúsins Reykjavík Brewing og verður bjór frá þeim í boði á staðnum en Ólafur og félagar sjá um veitingarnar. Snemma í sumar verður staðurinn Ó-le opnaður þar sem áherslan verður lögð á gott kaffi og sælkerasamlokur. Ó-le verður til húsa í Hafnarstæti 11, þar sem áður var hið fornfræga Café au lait. Nafn staðarins vísar því bæði til kaffihússins og er um leið afbökun á nafni Ólafs.

Við Pósthússtræti 2 verður svo þriðji staðurinn opnaður. Staðurinn hefur fengið nafnið BRÚT.

„Þar ætlum við að opna mjög glæsilegan, bjartan og fallegan stað sem verður með áherslu á sjávarfang í hverri mynd sem hægt er að hugsa sér,“ segir Ólafur.

Bjartsýn á sumrið

Hrefna Sætran, eigandi Fiskmarkaðarins, Grillmarkaðarins og Skúla Craft Bar, segir að tveggja metra reglan og afgreiðslutíminn hafi verið þeim fjötur um fót síðustu vikur. Lengri afgreiðslutími skipti gríðarlega miklu máli og gefi möguleikann á því að bóka hvert borð tvisvar yfir kvöldið.

Hrefna bendir á að þótt fleiri megi vera í hverju sóttvarnahólfi þá skipti það ekki miklu máli fyrir smærri veitingastaði þar sem tveggja metra reglan sé enn í gildi. „Við erum bjartsýn á sumarið og spennt fyrir frekari tilslökunum.“

Hrefna Sætran er bjartsýn fyrir sumrinu.
Hrefna Sætran er bjartsýn fyrir sumrinu. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert