Kom til Íslands til að mynda eldgosið

Ljósmyndarinn Tyler Brower var einn af þeim bólusettu ferðamönnum sem …
Ljósmyndarinn Tyler Brower var einn af þeim bólusettu ferðamönnum sem komu frá Bandaríkjunum með Delta Air Lines. Ljósmynd/Tyler Brower

Ljósmyndarinn Tyler Brower kom með fyrstu vél bandaríska flugfélagsins Delta Air Lines til Íslands í byrjun maí. Tilgangurinn var að skrásetja eldgosið fyrir National Geographic og skoða staði fyrir önnur verkefni.

Þetta var sjötta ferð Brower til Íslands og segir hann í samtali við mbl.is að hann elski að koma aftur og aftur til Íslands.

„Þessi ferð var skipulögð með mjög skömmum fyrirvara, við höfðum eina viku á milli verkefna og langaði að nýta tímann sem best. Þannig að við töluðum við samstarfsfélaga okkar á Íslandi og ákváðum að besta ákvörðunin væri að koma til að skrásetja fegurð eldgossins,“ segir Brower. 

Brower hafði aldrei séð virkt eldfjall áður.
Brower hafði aldrei séð virkt eldfjall áður. Ljósmynd/Tyler Brower

Brower er fæddur og uppalinn á annarri eldfjallaeyju, O'ahu á Havaí. Hann hafði þó ekki upplifað virkt eldfjall áður heldur aðeins það sem gerist eftir að eldgos verður. „Ég var ekki heima á eyjunni þegar fór að gjósa fyrir um áratug. Það er búið að taka mig langan tíma að fá loksins að upplifa eldgos, og það er því vel við hæfi að það sé á einum af mínum uppáhaldsstöðum í heiminum,“ segir Brower. 

Brower hefur unnið fyrir National Geographic síðan árið 2017 og hefur að mestu fjallað um ferðamannaiðnaðinn. Áður en hann hóf störf hjá NG hafði hann unnið fyrir ljósmyndarann Chris Burkard og meðal annars ferðast með honum til Íslands. 

Brower hefur komið til Íslands sex sinnum.
Brower hefur komið til Íslands sex sinnum. Ljósmynd/Tyler Brower

Í Íslandsferðum sínum hefur hann farið á skíði, brimbretti og tekið myndir fyrir önnur ljósmyndaverkefni. Hann dvaldi einnig á Ólafsfirði og aðstoðaði við þyrluskíðaferðir þar. 

„Í hvert skipti sem ég kem til Íslands elska ég allt sem ég fæ að upplifa. Heimamenn eru svo gestrisnir, hjálpsamir og styðja við mann. Mig langar aldrei að fara,“ segir Brower. 

Hann var kominn aftur til Bandaríkjanna þegar mbl.is náði tali af honum og var að undirbúa sig fyrir ferð til Alaska á morgun. Hann segir þó að þeir séu farnir skipuleggja aðra ferð til Íslands til að skoða eldgosið aftur.

Brower náði að ferðast um Suðurlandið í ferðinni til Íslands.
Brower náði að ferðast um Suðurlandið í ferðinni til Íslands. Ljósmynd/Tyler Brower/
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert