Bæta við ferðum til Tenerife um jólin

Þórunn Reynisdóttir.
Þórunn Reynisdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórunn Reynisdóttir, forstjóri ferðaskrifstofunnar Úrval Útsýn, segir að mikill áhugi sé á ferðum til Tenerife, Alicante og Kanarí-eyja um næstu jól. Upp seldist í ferðir sem voru á dagskrá og nú hafa þau bætt við tveimur ferðum til Tenerife til viðbótar. 

„Við byrjum með okkar ferðir nú um miðjan júní. Við erum að sjá hvernig sumarið er að taka við sér. Við höfum fengið fyrirspurnir og fólk er að bóka. Við erum bjartsýn að það komi kippur í það á næstu dögum,“ segir Þórunn í samtali við mbl.is. 

Hún segir að fjöldi bókana sé kominn í haustið og að veturinn líti almennt vel út. Flogið verður beint til Alicante í vetur. 

„Fólk er að tryggja sér sæti í jóla- og áramótaferðirnar snemma. Þær eru alltaf vinsælara og sætaframboð hefur verið takmarkað undanfarin ár,“ segir Þórunn. 

„Það hefur ekkert breyst að fólk vill komast í sólina,“ segir Þórunn sem finnur fyrir bjartsýni og ferðavilja hjá viðskiptavinum sínum. Bólusetningar og ástandið á faraldrinum bæði hér heima og á áfangastöðunum ræður för. 

„Við erum í góðu og miklu samstarfi við okkar samstarfsaðila ytra og teljum okkur vera með örugga og góða staði. Við erum alltaf að læra betur hvernig hægt er að ferðast í heimsfaraldrinum.“

Þórunn segir að það sem ekki hafi breyst í heimsfaraldrinum …
Þórunn segir að það sem ekki hafi breyst í heimsfaraldrinum sé að fólk vill komast í sólina. AFP
mbl.is