Í skýjunum með móttökurnar í Sky Lagoon

Dagný Pétursdóttir er framkvæmdastjóri Sky Lagoon.
Dagný Pétursdóttir er framkvæmdastjóri Sky Lagoon. Eggert Jóhannesson

Dagný Hrönn Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Sky Lagoon á Kársnesi, segir að þau gætu ekki hafa beðið um betri byrjun. Sólin hefur leikið við höfuðborgarsvæðið frá því böðin voru opnuð í lok apríl og uppselt var í þau síðastliðna helgi. 

„Dagarnir fram undan eru mjög vel bókaðir og við vorum ótrúlega ánægð að geta hækkað upp í 75% af hámarksfjölda á mánudaginn. Þannig að þetta lítur bara mjög vel út og við erum gríðarlega þakklát og í skýjunum með móttökurnar sem við höfum fengið,“ segir Dagný.

Á morgun, fimmtudag, eru tvær vikur frá því böðin voru opnuð og hefur verið fullt í þau velflest kvöld. Bóka þarf fyrir fram á netinu og segir Dagný að næstu vikur líti vel út. Uppstigningardagur er á morgun og því margir í fríi. Þegar blaðamaður talaði við Dagnýju voru nokkrir tímar lausir yfir daginn.

Hlakkar til að fá verra veður

Greint var frá því í Morgunblaðinu á þriðjudag að ekki væri vitað um jafnmargar sólskinsstundir í Reykjavík fyrstu níu daga maímánaðar og nú frá upphafi mælinga, 136 stundir, og úrkoma með minnsta móti. 

Dagný segir að góða veðrið bæti við upplifun gesta. „Við erum búin að hafa svo fallegt útsýni, Snæfellsjökull sést svo vel í dag og við sjáum eldgosið. Þetta veður er eiginlega himnasending fyrir gestina okkar.

Við hlökkum líka til að fá rigningu og smá grámyglu því lónið breytist algjörlega í veðri. Þá er meiri uppgufun og mér finnst það eiginlega enn skemmtilegra,“ segir Dagný. 

Flestir gesta Sky Lagoon hingað til hafa verið Íslendingar. Dagný segir að þau séu þó farin að fá einn og einn hóp af erlendum gestum og býst við að þeir verði fleiri þegar líður á sumarið.

„Við erum mjög bjartsýn á sumarið. Við gerum ráð fyrir að það fari hægt af stað en svo komi þetta mjög hratt þegar við fáum breska markaðinn inn og vonandi Evrópu seinni hluta sumars.“

Dagný segir meiri dulúð yfir lóninu í kaldara veðri og …
Dagný segir meiri dulúð yfir lóninu í kaldara veðri og rigningu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert