Giftu sig á 12. holu

Bill og Melinda Gates.
Bill og Melinda Gates. AFP

Fullkomið brúðkaup og fullkomin brúðkaupsferð gera ekki hjónabönd endilega farsæl. Í byrjun mánaðarins tilkynntu Bill og Melinda Gates að þau væru að skilja. Þau völdu algjöra paradís fyrir brúðkaupið og brúðkaupsferðin var ekki verri. 

Stofnandi Microsoft og Melinda Gates voru búin að vera saman í sjö ár þegar þau giftu sig á eyjunni Lanai. Eyjan er hluti af Havaíeyjum og er nokkuð nálægt eyjunni Maui. Til þess að forðast ágang ljósmyndara eru þau sögð hafa bókað öll hótelin á eyjunni. Þau eru einnig sögð hafa tekið á leigu allar þyrlur á eyjunni Maui. 

Á vef Forbes kemur fram að athöfnin hafi átt sér stað á Manele-golfvellinum, golfvelli hótelsins Four Seasons Resort Lanai. Þau fóru með heit sín á 12. holu en holan er par þrjú hola með gríðarlega fallegu útsýni yfir sjóinn. 

Eftir brúðkaupið fóru þau til Fiji-eyju þar sem þau voru út af fyrir sig. Nú, meira en 25 árum seinna, eru þau að skilja.

Golfvöllurinn á eyjunni Lanai þar sem Bill og Melinda Gates …
Golfvöllurinn á eyjunni Lanai þar sem Bill og Melinda Gates gengu í hjónaband. Ljósmynd/Four Seasons
mbl.is