Það er meira en eldgos á Reykjanesi

Við Garðskagavita er hvít og falleg strönd, en þaðan er …
Við Garðskagavita er hvít og falleg strönd, en þaðan er æðislegt að horfa á sólsetrið. Á sumrin er svo hægt að spila þar strandblak og því ekki vitlaust að taka boltann með í ferðina. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson

Það má búast við því að fjöldi fólks ætli sér að skoða eldgosið í Geldingadölum á Reykjanesi um þessa hvítasunnuhelgi. Veðurspáin er góð fyrir Reykjanesið á þessari fyrstu ferðahelgi sumarsins. Við skulum skoða aðeins nánar hvað Reykjanesið hefur upp á að bjóða meira en eldgos.

Á Reykjanesi er einhver sérstæðasta og stórfenglegasta náttúra sem þekkist í nágrenni hðfuðborgarsvæðisins. Á meðal þess sem fyrir augu ber eru hverir og gufustrókar, hraunbreiður, fuglabjörg, gígar, hellar og nýverið eldgos.

Þrátt fyrir mikla nálægð við Reykjavík er Reykjanesið það landsvæði sem eflaust margir Íslendingar eiga eftir að uppgötva almennilega og læra að njóta. Ferðavefur mbl.is fékk senda nokkra fjölskylduvæna ferðamola frá Heklunni, Atvinnuþróunarfélagi Suðurnesja.

Skessan í hellinum

Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson

Það er nauðsynlegt að kíkja í heimsókn á Skessuna í hellinum ef maður á leið um Reykjanesið. Skessan í hellinum situr í fullri stærð í hellinum sínum, Svartahelli, við smábátahöfnina í Gróf í Reykjanesbæ.

Skessan er verkefni unnið upp úr bókunum um Siggu og Skessuna eftir Herdísi Egilsdóttur. Hellirinn er gríðarstór, enda þarf Skessan mikið pláss, en hann telur 150 fm. Að sjálfsögðu er hellirinn skreyttur eftir höfði Skessunnar.

Karlinn - Gígtappi

Karlinn er um 50-60 m hár klettur eða gígtappi, sem stendur í hafinu úti fyrir Valarhnúk. Karlinn er vinsæll ferðamannastaður enda er hann ótrúlega mikilfenglegur, sérstaklega þegar aldan skellur á með miklum ofsa.

Gunnuhver

Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson

Gunnuhver er staðsettur rétt hjá Reykjanesvita, en þar er mikið jarðhitasvæði. Gunnuhver er þekktasti hverinn þar og dregur hann nafn sitt af Guðrúnu sem sögð er hafa gengið aftur og valdið miklum usla á svæðinu, þar til Eiríki Magnússyni, presti í Vogsósum, tókst að koma draugnum niður með því að senda hann í hverinn.

Brimketill

Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson

Brimketill er sérkennileg laug í sjávarborðinu vestast í Staðarbergi, stutt frá Grindavík. Hann líkist helst heitum potti, sérstaklega á sólríkum dögum, en vatnið í honum er þó ískaldur sjór og ekki æskilegt til baðferða.

Reykjanesviti

Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson

Reykjanesviti er einstaklega tignarlegur viti sem stendur efst á Bæjarfelli. Reykjanesviti er elsti viti landsins, en hann var reistur 1908. Stutt er á milli Gunnuhvers og Reykjanesvita og upplagt að slá tvær flugur í einu höggi.

Brú milli heimsálfa

Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson

Austurhluti landsins tilheyrir því Evrasíuflekanum en vesturhluti landsins tilheyrir Norður-Ameríkuflekanum. Skilin milli flekanna birtast okkur ýmist sem opnar sprungur og gjár, eða sem gígaraðir. Búið er að byggja brú yfir flekaskilin, upp af Sandvík á Reykjanesi, og þú getur þess vegna labbað með alla fjölskylduna á milli heimsálfa.

Fjöruferð í Grindavík

Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson

Farðu með fjölskylduna í fjöruferð á ströndinni vestan Grindavíkur. Þetta er mikilfenglegt svæði með fjölskrúðugu fuglalífi og gróðurfari. Meðfram sjávartjörnum er hraunkantur og djúpar vatnsfylltar gjár. Svæðið er á náttúruminjaskrá og ekki að ástæðulausu.

Ströndin við Garðskagavita

Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson

Við Garðskagavita er hvít og falleg strönd, en þaðan er æðislegt að horfa á sólsetrið. Á sumrin er svo hægt að spila þar strandblak og því ekki vitlaust að taka boltann með í ferðina.

mbl.is