Ása vinnur fyrir Vogue og kynnir Ísland

Ása Steinars skrifar fyrir Vogue í Skandinavíu.
Ása Steinars skrifar fyrir Vogue í Skandinavíu. Ljósmynd/Ása Steinars

Fyrsta útgáfa af Vogue Scandinavia kemur út í ágúst en íslenski ferðaljósmyndarinn Ása Steinars skrifar fyrir blaðið. Ása er gríðarlega spennt fyrir verkefninu þar sem hún mun sérhæfa sig í skrifum um ferðalög, gistimöguleika og vellíðan á Íslandi sem og á á hinum Norðurlöndunum. 

Ása segir að Vogue Scandinavia sé hugsað fyrir alla og verður gefið út á ensku. Hún segir áhugi á Norðurlöndunum alltaf að aukast og því falin ýmiss tækifæri í nýja tímaritinu. „Ég er byrjuð á fullu að vinna fyrir þau. Ég er mjög spennt að ljósmynda og skrifa allskonar greinar um Ísland og hin Norðurlöndin fyrir þau. Ég mun sérhæfa mig í ferðalögum, útivistafatnaði og náttúrunni. Ég get því miður ekki deilt neinum smáatriðum um tímaritið eins og er, en ég mæli með að heimsækja rafrænu verslunina hjá Vogue Scandinavia og næla sér í áskrift á tímaritinu sem kemur í ágúst.“

Hvað þýðir það fyrir þig að fá svona starf?

„Þetta er nýtt skref í mínum ferli og mun eflaust fela í sér fullt af tækifærum, ég er spennt að setja íslenskt „touch“ á Vogue-tímaritið. Þau eru einnig mjög spennt að fá þennan náttúruvinkil sem ég kem með. Það er mikill heiður að fá að vinna með svona flottu fyrirtæki og vörumerki, og við höfum frábært teymi á bak við það. Allir sérfræðingarnir sem koma að Vogue Scandinavia eru magnaðir og mikill innblástur fyrir mig.“

Kemur það sér vel eftir kórónuveirufaraldurinn og færri ferðalög?

„Persónulega hef ég notið þess að vera minna á ferðinni á milli landa og tengjast náttúrunni á Íslandi á nýjan hátt. Ég hef nýtt tímann vel og ferðast mikið um Ísland og þegar öllu er á botninn hvolft er þetta uppáhaldslandið mitt til að ferðast um. Ég er mjög ánægð með hvernig Ísland hefur staðið að heimsfaraldrinum og ég held að landið okkar hafi líklega verið besti staðurinn til að vera á síðasta árið. En ef ég lít fram á veginn, er ég spennt að fara að ferðast aftur og sérstaklega núna meira um Norðurlöndin. Ég byggði minn eigin húsbíl og planið er að ferðast á honum um Færeyjar, Noreg og Finnland í haust.“

Ása Steinars er búin að vera mikið á Íslandi í …
Ása Steinars er búin að vera mikið á Íslandi í kórónuveirufaraldrinum. Ljósmynd/Ása Steinars

Hvaða þýðingu hefur svona umfjöllun fyrir íslenska ferðamennsku?

„Að fá reglulegar greinar í Vogue er auðvitað frábær landkynning og gæti mögulega náð til nýrra hópa og lesenda. Þannig ég held að þetta sé mjög jákvætt skref fyrir íslenska ferðaþjónustu. Ég mun fjalla um hve ótrúleg íslensk náttúra er og segja fleiri sögur frá mínu sjónarhorni sem heimamaður. Ég er sérstaklega spennt að deila greinum sem sýna nýjar hliðar á íslandi og minna þekktum svæðum og þjónustum.“

Ertu búin að skipuleggja sumarið þitt?

„Í sumar mun ég aðallega vera heima á Íslandi, ég ætla að vera eins mikið úti í náttúrunni eins og ég get. Húsbílinn er tilbúinn og planið er að búa samfleytt í honum í minnsta kosti mánuð. Ég ætla að einblína á „Slow Travelling“.

mbl.is