Heiða hefur heimsótt 45 sundlaugar

Heiða Harðardóttir lærði að synda í Varmárlaug í Mosfellsbæ.
Heiða Harðardóttir lærði að synda í Varmárlaug í Mosfellsbæ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heiða Harðardóttir, sundlaugasafnari og nemi í húsgagnabólstrun og kærasti hennar Finnur Pálmi Magnússon opnuðu vefinn sundlaugar.com í fjórðu bylgju heimsfaraldursins. Hugmyndin að verkefninu fæddist þeim þegar þau voru á ferðalagi um Vestfirði fyrir fjórum árum þegar Heiða hafði farið í þrjár sundlaugar á sama deginum. 

„Í kjölfarið fórum við að pæla í hversu margar laugar væru á landinu, hvað við ættum margar eftir og hvort við gætum ekki haldið utan um þessa áskorun að heimsækja þær allar,“ segir Heiða. 

„Þetta er í grunninn sáraeinföld hugmynd. Finnur setti upp kerfi þar sem þú getur skráð þig og haldið utan um hvaða sundlaugar þú hefur farið í. Ég sá að mestu um efnistökin og á einhverjum tímapunkti í Covid bylgju 4 var þetta orðið nógu gott til að opna fyrir umheiminum,“ segir Heiða. 

Laugaskarð í Hveragerði.
Laugaskarð í Hveragerði. mbl.is/Sigurður Bogi

Inni á vefnum er að finna yfirlit yfir sundlaugar landsins og þar geta notendur stofna reikning og merkt við hversu margar sundlaugar þeir hafa heimsótt. „Það hleypti miklu kappi í fólk og núna nálgumst við 2000 notendur sem hafa merkt við 28 laugar að meðaltali,“ segir Heiða. 

Þar er að finna smáar sem stórar laugar, baðlón og sjóböð. Eitt er þó ekki að finna, og það eru náttúrulaugarnar. 

„Við erum enn að rökræða hvernig maður flokkar sundlaugar. Við höfum ekki haft náttúrulaugarnar þarna inni en erum að spá í að bæta við manngerðum laugum sem hafa búningaaðstöðu. Þá verða þetta líklega rúmlega 120 sundlaugar í allt.“

Heitipotturinn í Vesturbæjarlaug er vöðvabólgubani.
Heitipotturinn í Vesturbæjarlaug er vöðvabólgubani. Ljósmynd/Aðsend

En af hverju sundlaugar? Hvað er það sem heillar?

„Möguleg ástæða áhuga míns á ævintýralegum sundlaugum er sennilega komin frá reglulegum heimsóknum í gömlu sundlaugina á Laugum í Sælingsdal sem barn. Ef ég gæti ferðast aftur í tímann þá væri ég til í að fara í þá gömlu laug.

Hún var skemmtilega hrá og í minningunni svolítið drungaleg með heitum potti sem í raun var lítið herbergi með einum glugga. Það birtust skemmilegar myndir og texti af upplifun Roni Horn myndlistarkonu af þessari laug og pottinum í Lesbók Morgunblaðsins 2002.

Þar kemst hún svo að orði: „Maður
fer að þessum heita potti í gegnum upphækkaðar dyr á vegg sundlaugarinnar við hliðina. Og síðan stígur maður niður, beint ofan í vatnið og inn í munúðarfullan og draumkenndan heim friðsældar.“

Áður fyrr var þessi sundlaug einnig notuð sem samkomuhús og fór móðir mín á dansleiki þarna, en þá var sundlaugin tæmd og hún notuð sem danssalur.“

Hversu margar sundlaugar hefur þú farið í?

„45 sem er um 39% af sundlaugum landsins, þannig að ég á nóg eftir.“

Sundlaug Dalvíkur er besta laugin fyrir norðan að mati Heiðu.
Sundlaug Dalvíkur er besta laugin fyrir norðan að mati Heiðu. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Hvaða sundlaug er í mestu uppáhaldi hjá þér?

„Sundlaugin í Heydal er ein af mínum uppáhalds laugum. Hún er í gömlu fjárhúsi sem breytt hefur verið í gróðurhús með suðrænum gróðri og ef ég man rétt þá eru þar epla og kirsuberjatré.“

Hvað þarf góð sundlaug að hafa að þínu mati?

„Ég geri í raun ekki miklar kröfur kannski bara að það sé sundlaug og heitur pottur, jafnvel nóg að það sé bara sundlaug og hún sé nokkuð hlý þá.“

Hver er besta sundlaugin á Höfuðborgarsvæðinu og af hverju?

„Besti potturinn er í Vesturbæjarlaug, hann vinnur best á vöðvabólgunni. Svo er alltaf gott að synda í Laugardalslaug.“

Hver er besta sundlaugin á suðurlandi?

„Sundlaug Vestmannaeyja og Laugaskarð í Hveragerði.“

En á vestfjörðum?

„Það er þá Heydalur aftur og svo sundlaugin Birkimel“

En fyrir norðan?

„Sundlaug Dalvíkur“

En austan?

„Selárdalslaug í Vopnafjarðarhreppi“

Hvaða sundlaug átt þú eftir að heimsækja sem þú hlakkar til að fara í?

„Langar í nyrstu sundlaug landsins í Grímsey. Hún er að opna aftur núna eftir viðgerðir.“

Hvaða sundlaugar ætlar þú að heimsækja í sumar?

„Ætli það fari ekki eftir því hvar við verðum á landinu. Stefnum á að ferðast að íslenskum sið og elta góða veðrið og því má segja að veðrinu að ráði að einhverju leyti hvaða laugar verði heimsóttar. En í öllu falli þá stefnum við á að bæta við nokkrum sundlaugum þó það taki eflaust nokkur ár í viðbót að klára þetta verkefni.“

Árbæjarlaug í desember 2020.
Árbæjarlaug í desember 2020. Ljósmynd/Árni Torfason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert