Ríða út sem Reiðkonur syndanna

Vinkonurnar Hróðný og Ástríður eru í hestavinkonuklúbbnum Reiðkonur syndanna.
Vinkonurnar Hróðný og Ástríður eru í hestavinkonuklúbbnum Reiðkonur syndanna. Ljósmynd/Aðsend

Fjórar vinkonur tóku upp á því að fara í hestaferðir saman og kalla sig Reiðkonur syndanna. Þrjár þeirra eru byrjendur í hestamennsku og kom það Ástríði Þóreyju Jónsdóttur og vinkonum töluvert á óvart að þær þyrftu ekki að eiga hesta og hesthús til þess að byrja í hestamennsku. 

Með Ástríði í hópnum eru þær Elín Hrafnsdóttir, Hróðný Kristínar Kristjánsdóttir og Lína Ágústsdóttir. Þrjár þeirra kynntust í laganámi en sú fjórða er æskuvinkona að vestan. „Nafnið varð til í fyrstu hestaferð okkar með Hekluhestum, smá stæling af hljómsveitinni Reiðmenn vindanna en ein af okkur er líklega mesti Helga Björns-aðdáandi á landinu,“ segir Ástríður. 

Hafið þið verið í hestamennsku lengi?

„Ein okkar er reynd hestakona og félagskona í Sörla í Hafnarfirði, hinar þrjár eru byrjendur en allar mjög áhugasamar um reiðmennsku og ævintýraferðir um fallega landið okkar.“

Elín, Hróðný, Ástríður og Lína fara saman í hestaferðir.
Elín, Hróðný, Ástríður og Lína fara saman í hestaferðir. Ljósmynd/Aðsend

Er hægt að vera í hestamennsku án þess að eiga hesta og hesthús?

„Já það kom okkur nefnilega svolítið á óvart að það er hægt að leigja hesta, það er kannski ekki víða en Íshestar í Hafnarfirði bjóða til dæmis upp á það að leigja hesta og er það frábært tækifæri fyrir þá sem eru að byrja og vilja aðeins þreifa fyrir sér í sportinu áður en ákvörðun er tekin um að kaupa hest.“

Hvers konar ferðir hafi þið farið í?

„Við höfum farið í algjörlega frábærar ferðir með Hekluhestum. Við höfum hingað til aðeins farið í ferðir á Suðurlandinu og í nágrenni Heklu en í lok júní erum við að fara á hálendið. Við erum gríðarlega spenntar fyrir þeirri ferð því Hekluhestar hafa sérhæft sig í hestaferðum á hálendið um árabil og búa yfir gríðarlegri þekkingu og reynslu og ferðirnar með þeim eru ógleymanlegar.“

Það er stemning í hestaferðum í íslenskri náttúru.
Það er stemning í hestaferðum í íslenskri náttúru. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er krefjandi við að fara í langar hestaferðir?

„Það sem er kannski mest krefjandi er að venjast því að vera á hestbaki í lengri tíma og maður getur verið smá aumur en það er fljótt að venjast.“

En skemmtilegast?

„Að upplifa íslenska náttúru að sumri til og kraftinn í íslenska hestinum er algjörlega dásamlegt, í fallegu sumarveðri er fátt sem jafnast á við þetta. Félagsskapurinn og tengslin sem myndast í svona ferðum eru svo dýrmæt. Það gerir þessar ferðir svo einstakar. Það hefur verið algjörlega frábært að geta stundað þetta áhugamál í gegnum covid. Maður verður svo þakklátur fyrir að eiga þetta fallega land og þennan fallega hest sem íslenski hesturinn er,“ segir Ástríður.

Reiðkonur syndanna hafa farið í hestaferðir um Suðurlandið. Í sumar …
Reiðkonur syndanna hafa farið í hestaferðir um Suðurlandið. Í sumar ætla þær á hálendið. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert