Björn Steinbekk sefur í jeppanum

Björn Steinbekk ferðast um landið í sumar og myndar.
Björn Steinbekk ferðast um landið í sumar og myndar. Ljósmynd/Björn Steinbekk

Björn Steinbekk verður á ferð um landið í sumar og munu drónamyndskeið og ferðafréttir hans birtast inni á Ferðavef mbl.is. Þar mun hann sýna lesendum staði sem þeir hafa ekki séð áður en Björn ekur um á glæsilegum Toyota Hilux sem er sérútbúinn fyrir ævintýri sumarsins.

„Mér og mbl.is fannst áhugavert að deila með lesendum vefsins öðrum sjónarhornum af Íslandi, sjónarhornum sem ég hef síðustu ár gripið með dróna. Það verður til önnur sýn á landið þegar myndað er á þennan hátt. Ég hef upplifað stundir þar sem ég hreinlega trúi ekki að það sem ég sé í gegnum skjáinn sé til. Síðan er það hitt að Íslendingar hafa vegna Covid verið að ferðast meira um landið og þar sem ég hef keyrt meira en 120.000 km síðustu þrjú ár, sérstaklega til að mynda, þá er gaman að geta frætt, ráðlagt og komið með hugmyndir um áfangastaði,“ segir Björn.

Björn mun skrifa um staði og upplifanir sem munu höfða til fjölbreytts hóps.

„Allt frá því hvaða foss ég telji að verði næsti Instagram-foss landsins til þess að segja fólki frá hvar ég hef gengið um dali, fjöll og gil að Fjallabaki til að mynda náttúrufegurðina þar, sem umlykur allt. Mest verða þetta myndbönd en einnig ljósmyndir,“ segir hann.

Ef þú værir að fara austur, hvert myndir þú fara og hvað myndir þú gera?

„Verandi Austfirðingur í húð og hár þá er það svo margt sem hægt er að gera. Ef tíminn er knappur er hægt að fara frá Egilsstöðum inn í Hallormsstaðaskóg, þaðan að Hengifossi og ganga upp að honum og skoða Litlanesfoss í leiðinni. Það er ganga sem svíkur engan. Þaðan er gott að fara að Skriðuklaustri og fá sér kannski að borða eða kökusneið. Eftir það er tvennt í stöðunni. Annarsvegar að fara djúpt inn í Fljótsdal og upplifa Óbyggðasetrið eða fara upp að Kárahnjúkum, þaðan niður að Hafrahvammsgljúfrum sem eru ótrúleg perla og þaðan í Stuðlagil. Svo ef tíminn er nægur væri gott að enda í afslöppun í baðstaðnum Vök.“

Björn er á sérútbúnum Toyota Hilux.
Björn er á sérútbúnum Toyota Hilux. Ljósmynd/Björn Steinbekk

Síðasta sumar gerði Stuðlagil allt vitlaust. Hver verður sá staður í ár?

„Ég held að Stuðlagil haldi toppsætinu því allir sem fóru ekki í fyrra fara í ár og má segja að síðasta sumar hafi verið ein besta markaðssetning á þessu sumri. Að því sögðu held ég að Hengifoss verði vinsæll og síðan er eitthvað sem segir mér að Hryggur við Sveinsgil sem oftast er kallaður Græni hryggur verði gríðarlega vinsæll. Ég mun einmitt fjalla um hann mjög bráðlega hér á mbl.is,“ segir hann.

Björn ekur um að glæsilegri Toyota Hilux-bifreið sem er ekki bara jeppi heldur líka sjónvarpsstöð á hjólum og gististaður.

„Ég er svo heppinn að eiga góða að hjá Toyota sem hafa síðustu ár stutt dyggilega við bakið á mér og haft trú á því sem ég er að gera. Hluti af því samstarfi er að við vorum að leggja lokahönd á nýjan Hilux sem var breytt eftir mínu höfði því ég tel að enginn bíll segi útvist og ævintýri jafn vel og Toyota Hilux. Það verður til dæmis sett á bílinn tjald þannig að ég þarf ekki lengur að vera háður gistingu eða vakna á nóttunni til að mynda einhvern stað við sólarupprás heldur verð ég bara klár í tjaldinu. Bíllinn er líka streymis- og sjónvarpsstöð á hjólum því við höfum byggt inn í hann snúrur fyrir allar tegundir af myndavélum, tvö 4G skipaloftnet, 3.500 w rafmagnsbreyti og fullkomna Blackmagic-útsendingartölvu fyrir net og sjónvarp. Bíllinn á sér í raun og veru enga hliðstæðu á Íslandi. Snillingarnir í Origo og Skjáskoti hafa verið mér til halds og trausts og gera það kleift að lesendur mbl geti upplifað mögulega beint streymi úr dróna frá Stuðlagili eða ég keyri í beinni hringinn og segi frá nýjum og gömlum náttúruperlum.“

Hengifoss er einn af þeim fossum sem eru í uppáhaldi …
Hengifoss er einn af þeim fossum sem eru í uppáhaldi hjá Birni. Ljósmynd/Björn Steinbekk

Sumarið verður annasamt hjá Birni en auk þess að vinna efni fyrir mbl.is er hann í spennandi verkefnum í tengslum við gosið.

„Inn á milli eru síðan fótboltamót með syninum þar sem við konan tökum okkur smá frí og spilum golf og síðan stefnum við fjölskyldan á að fara til Eyja. Ég til að mynda og þau til að slaka á og njóta og síðan eigum við seinnipart og kvöldin saman. Eyjar eru einn af okkar uppáhaldsstöðum á landinu og fólkið í Eyjum það besta sem ég hef kynnst, fyrir utan fólkið á Eskifirði auðvitað. Síðan munum við eyða tíma á Vestfjörðum eins og öll sumur því þar er gott að vera.“

HÉR er hægt að lesa Ferðablað Morgunblaðsins. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »