Andardráttur eldfjallsins

Gosið í Geldingadölum tekur á sig nýja mynd daglega og því eðlilegt að fólk leggi leið sína á gosstöðvarnar aftur og aftur og aftur. Slíkt er aðdráttaraflið.

Þótt komið sé fram í júní er allra veðra von á Fagradalsfjalli og því ekki úr vegi að fara aðeins yfir hvað gott er að hafa í huga áður en lagt er af stað úr borg eða bæ.

Góðir skór gera allar göngur betri og ættu að vera það fyrsta sem fólk ákveður að vera í. Ótal tegundir eru til sem geta létt fólki lífið í bröttum göngustígum og lausri möl. Þarna má aldrei spara í innkaupum.

Ull leysir mörg vandamál. Heldur hita, minnkar þörfina á að klæða sig í mörg lög af yfirhöfnum og það er auðvelt að líða vel í henni. Skel er nauðsynleg og 66 Norður hefur aldrei brugðist mér við fjallið, bæði jakki og buxur. Mörgum finnst gott að vera með þunnan dúnjakka til að einangra sig betur og það er góð lausn því oftast er lítið mál að brjóta slíka flík saman og setja í bakpoka.

Að lokum: nesti og nóg af vatni. Það er auðvelt að gleyma sér við eldgosið og þá kemur nestið að góðum þörfum.

Munum svo að ganga vel um, ekki skilja eftir okkur rusl og ef þú sérð rusl, taktu það upp og hentu í ruslið þegar heim er komið. Ekki gleyma að borga fyrir bílastæðið. Það er ekki sjálfgefið að fá jafn góða aðstöðu og landeigendur bjóða upp á þegar svona náttúruundur er annars vegar. Þúsund krónur er ekki há upphæð fyrir gott bílastæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert