Pétur fór til Nepals í leit að sannleika

Pétur Óskar Sigurðsson er mikill heimsborgari.
Pétur Óskar Sigurðsson er mikill heimsborgari. Ljósmynd/Aðsend

Pétur Óskar Sigurðsson leikari og tónlistarmaður gefur út tónlist undir nafninu Oscar Leone. Pétur er mikill heimshornaflakkari, lærði alþjóðasamskipti í Boston og leiklist í París. Eins og aðrir hefur hann dvalið töluvert meira á Íslandi undanfarið en útþráin er farin að toga í hann. 

„Án þess að monta mig of mikið þá myndi ég segja að ég væri frekar vanur ferðalögum. Pabbi er gamall flugmaður og hefur það því alltaf verið mér mjög eðlislægt að vera á flandri, fæ það frá honum. Ég er ekki jafnduglegur að ferðast um Ísland þótt ég geri það að sjálfsögðu en einhvern veginn þarf ég að komast til útlanda til að slökkva alveg á heilanum. Þegar ég ferðast á Íslandi líður mér of oft eins og ég eigi að vera að gera eitthvað. Vinna eða eitthvað,“ segir Pétur um hvernig hann er vanur að ferðast. 

Pétur var vanur að vera á flakki og því breyttust ferðavenjur hans töluvert í kórónuveirufaraldrinum. „Þær breyttust mjög mikið á þessu ári og síðasta. Maður hefur náttúrlega bara verið fastur hér á Íslandi. Það hefur kennt mér að meta landið meira. Landið okkar er svo ótrúlega fallegt og miðað við hryllingssögurnar sem maður heyrði úti í heimi fannst mér gott að vera bara hér. Leið eins og ég ætti heima í The Shire í Lord of the Rings og í heilt ár var maður bara þar, að líta inn á við og halda sér réttum megin við línuna. Það var hollt fannst mér.“

Hvað stóð upp úr í fyrrasumar þegar það mátti ekki ferðast erlendis? „Hvernig maður var eiginlega neyddur að staldra aðeins við og hugsa: Hvernig vil ég haga lífi mínu? Hvað er mér mikilvægt og hvað má fara sína leið? Mér fannst líka mjög næs að eiga landið út af fyrir okkur í smá tíma og gefa því smá hvíld. Held að við höfum öll haft gott af því að skipta úr víruðum sjötta gír niður í viðráðanlegan þriðja.“

Pétri líður best á flakki.
Pétri líður best á flakki. Ljósmynd/Aðsend

Ferðalag til Nepals stendur upp úr

Ferðalög hafa kennt Pétri margt en það eftirminnilegasta er ferðalag sem hann fór í til Nepals. „Ég fór þangað einn í leit að einhverjum sannleika og eitt af því sem ég lærði þar er hvað við erum góðu vön hvað viðkemur til dæmis því hvernig við búum. Þarna bjó ég í alls konar aðstæðum, bæði á gistiheimilum í Katmandú og svo tekofum í Himalajafjöllunum. Og þetta ýtti undir mínimalismapælingar hjá mér. Að við þurfum ekki allt þetta dót sem við söfnum að okkur. Við erum alveg jafnhamingjusöm, ef ekki hamingjusamari, ef við eigum minna af dóti. Að sjá sólina rísa yfir Anna Purna-fjallagarðinum er líka nokkuð sem enginn sem það sér gleymir á þessari lífsleið,“ segir Pétur. 

Pétur kann vel við sig einn en segist hafa áttað sig á því á ferðalögum sínum að hann er félagsvera. Hann segir dýrmætt að geta deilt minningum með öðru fólki. „Ég fann það sterkt í Nepal hvað mig langaði að hanga með fólki og deila minningum. Þannig að ég var bara farinn að tala við alls konar fólk og spyrja hvort ég mætti hanga með því og það var ótrúlega fallegt. Held við séum öll þar; að vilja tilheyra og vera séð. Maður lærir það í svona aðstæðum.“

Ljósmynd/Aðsend

Japan togar

Pétur ætlar að byrja sumarið á að einbeita sér að því að gefa út lögin Hræddir litlir strákar og Sjaldan er ein báran stök. Það fer eftir því hvernig myndbandsgerðin gengur hvenær þau koma út en hann segist vera mjög spenntur þar sem þetta er í fyrsta skipti sem hann gefur út lög á íslensku og leikstýrir eigin myndböndum. „En svo er ég að spá í að kíkja til Spánar eða Japans í mánuð. Það fer dálítið eftir þessari blessuðu veiru en ég hef ekki tekið mér svona langt frí síðan ég var unglingur. Mig langar að aftengja mig aðeins, fara af samfélagsmiðlum og leyfa næstu skrefum í lífi mínu að koma til mín. Svörin koma yfirleitt þegar ég er vel hvíldur og í trausti við Guð og menn. Ég mun í mesta lagi taka gítarinn með ef ske kynni að einhver hugmynd spretti fram. Það gerist oft í nýju umhverfi. Og já, bara synda í sjónum og borða paellu eða sushi. Sjá eitthvað nýtt.“

Gítarinn er oft með í ferðalögum.
Gítarinn er oft með í ferðalögum. Ljósmynd/Aðsend

Uppáhaldsstaður á Íslandi? „Hafnarfjörður. Hjartað. Er alinn þar upp frá tíu ára aldri. Þar ól ég manninn," segir Pétur, sem býr nú við Meðalsfellsvatn. 

Hvert dreymir þig um að fara? „Japans. Fór þangað sem krakki en langar að fara aftur – finn að það togar í mig. Jafnvel búa þar í nokkra mánuði og sjá hvað það er. Mér líður eins og Japaninn sé kominn lengra í ákveðnum pælingum og mig langar að tappa aðeins inn í það. Eða Berlínar. Það er komin lúmsk útlandaþrá í mig. Svo langar mig að fara á Hornstrandir og ganga Laugaveginn, á það eftir. Að keyra Vestfirðina er líka alltaf einstök upplifun.“

Það heyrist vel á Pétri að það er komin mikil útþrá í hann. Hann segist hafa það aðeins of þægilegt á Íslandi og langar að komast út til þess að hrista upp í kerfinu. Hann segist samt vera rólegur hér og líða vel. „Það væri enginn heimsendir ef ég þyrfti að vera bara hér. Það er líka hægt að ferðast innanlands, á alls konar hátt.“

Sterkar tengingar við Bandaríkin

Pétur lærði alþjóðasamskipti í Boston-háskóla áður en hann flutti til Parísar til að hefja nám í leiklist. Hann segir bandarísku borgina alltaf eiga sérstakan sess í hjarta sínu. „Ég var þar í háskóla og á svo margar fallegar minningar þaðan. Þegar ég fer þangað núna labba ég bara um og tárast, af þakklæti og nostalgíu,“ segir Pétur og minnist góðra tíma þar sem hann og Jón Jónsson tónlistarmaður voru herbergisfélagar.

Pétur keyrði strandlengjuna frá Los Angeles til San Francisco.
Pétur keyrði strandlengjuna frá Los Angeles til San Francisco. Ljósmynd/Aðsend

Big Sur í Kaliforníu er einnig í uppáhaldi. „Það er yndislegur staður og mæli ég með því að keyra strandlengjuna frá Los Angeles til San Francisco allavega einu sinni á lífsleiðinni. Mæli með að gista í bæ sem heitir Cambria og taka göngutúr um Moonstone Beach um morguninn. Ekki týna vísakortinu ykkar þar samt – það gerði ferðina aðeins erfiðari en hún hefði þurft að vera.

New York. Ég á mjög margar fallegar minningar þaðan. Á marga vini þar og orkan í þessari borg er svo sterk. Fær mann til að trúa á stærri hluti og að maður geti gert meira við líf sitt. Spýtir í mann framkvæmda- og draumaorkunni.“

Pétur hefur búið víða og ferðast um heiminn en er …
Pétur hefur búið víða og ferðast um heiminn en er eins og er á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend

París falleg og erfið

„Berlín er líka æði. Ég fer oft þangað því ég á það til að vinna þar sem leikari. Og líka út af Kit Kat Club. Ferð þar inn sem ákveðin týpa en kemur út allt önnur. Mjög frelsandi og skemmtilegur staður. Maturinn í Berlín er líka geggjaður. Ég ferðast mikið líka bara til að kynnast matarmenningunni. Kann vel við lönd sem eru með hollan og góðan mat.“

Pétur lék nýverið í þáttunum Verbúð sem Vesturport framleiðir. Hann lék þar lítið en fallegt hlutverk og segir langþráðan draum hafa ræst. „Það er ein af ástæðum þess að ég fór í leiklistarskóla og því var ég himinlifandi þegar það gerðist. Draumur sem varð að veruleika og ég vissi það á meðan það var að gerast og gat notið þess í rauntíma. Mig langaði ekkert heim eftir daginn, langaði bara að hanga þarna áfram þótt ég væri löngu búinn í tökum,“ segir Pétur. Hann lék líka í þáttunum Capitani sem eru frá Lúxemborg en sýndir á Netflix. Í þáttunum spreytir Pétur sig á lúxemborgsku. 

Pétur segir erfitt en fallegt að búa í París.
Pétur segir erfitt en fallegt að búa í París. Ljósmynd/Aðsend

Pétur lærði list sína í Cours Florent í París. „París. Hún er jafnfalleg og hún er erfið. Ég var í mjög strembnu leiklistarnámi þar. Fór út sem einhvers konar fótboltatýpa sem var vel meðvituð um sjálfa sig yfir í að verða leiklistarnemi í París. Þau umskipti tóku á en ég er rosalega þakklátur fyrir það í dag. Að hjóla í París um miðja sumarnótt er nokkuð sem ég mun aldrei gleyma og geymi í hjartanu að eilífu.

Þar getur þú bara verið að hjóla fram hjá Notre Dame, Eiffel-turninum, Signu og börunum öllum sem iða af lífi á einni kvöldstund. Hún gerði mig að manni og verð ég henni ævinlega þakklátur fyrir. Ernest Hemingway lýsti henni best að mínu mati þegar hann sagði: „If you are lucky enough to have lived in Paris as a young man, then wherever you go for the rest of your life it stays with you, for Paris is a moveable feast.““

Pétur lærði leiklist í París.
Pétur lærði leiklist í París. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is