Í miðnætursól við Látrabjarg

„Við sigldum á seglum frá Akranesi. Með framseglið uppi fórum við á fleygiferð út Faxaflóa undir bláum himni með fallegu fjöllin á Snæfellsnesi á stjórnborða. Sjórinn var órólegur eftir lægðina sem hafði leikið við landið og við dönsuðum á öldutoppum út flóann, - en ekki ávallt í takt við magann. Við vorum þó fljótar að hrissta af okkur velgjuna,“ skrifa Seiglurnar, hópur kvenna sem sigligir umhverfis Ísland á seglskútu í nýjum pistli: 

Á hádegi tókum við upp þrískiptar vaktir við stýrið. Fagur ferðafélagi tók á móti okkur, Snæfellsjökull, sem slóst í för með okkur seinni part dags. Þar til við héldum út á Breiðafjörð og fylgdumst með háhyrningahjörð og súpuskálar fóru á flug yfir undrum hafsins.

Á Breiðafirði tók á móti okkur austanátt sem þandi seglin. Smám saman reis Vestfjarðakjálkinn úr sæ með Látrabjarg í fararbroddi. Á miðnætti undir miðnætursól og fuglaflokkum, á leið með björg í bú, sigldum við framhjá tignarlegu bjarginu. Þá hafði vindurinn snúist beint á móti og við tókum inn seglin.

Vestfirðirnir tóku vel á móti okkur og á meðan við héldum áfram norður með kjálkann á stjórrnborða héldu strandveiðimenn á sjó, út í sumarnóttina. Það var erfitt að fara að sofa í dýrðinni og konur fleygðu sér um stund þar sem höfuð fann hvílu, - rétt til hlaða batteríin.

Sólin sleikti sjóndeildarhringinn og kom aftur upp uppúr klukkan tvö. Þá var komin ró á skútuna sem hélt þó sína leið til Ísafjarðar.

Ísafjarðardjúp speglaði fjöllin í logninu þegar skútan Esja sigldi inn Djúpið. Stillan og dásemdin var óraunveruleg. Úti fyrir Hnífsdal kom kajak-kona siglandi til móts við okkur, Veiga, sem réri svo eftirminnilega rangsælis í kringum landið, eins og Seiglur gerast bestar.

Krakkar í leikskóladeild Tanga á Ísafirði veifuðu okkur úr árlegri fjallgöngu í Naustahvilft og á móti okkur tók dyggur hópur á bryggjunni. Fyrsta legg er lokið. Við erum komnar á Ísafjörð.

mbl.is