Leyndarmálið um Stuðlagil

Það var greinilegt á samfélagsmiðlum síðasta sumar að basaltgljúfur í efri Jökuldal á Austurlandi átti hug og hjarta landsmanna. Stuðlagil, eins og gljúfrið er nefnt, varð á nokkrum árum eitt helsta aðdráttarafl Austurlands og í raun alls Íslands en það var ekki alltaf þannig.

Stuðlagil var fólki og fuglum falið því um það flæddi mórauð Jökulsá á Dal, eða Jökla eins og heimamenn kalla hana, ofan af hálendinu. Yfirborð árinnar var mun hærra þar til Kárahnjúkavirkjun var byggð. Í framhaldinu breyttist Jökulsá á Dal í árstíðaskipt vatnsfall og ræðst vatnsmagnið af því hvenær uppistöðulón Kárahnjúkavirkjunar fyllist, oftast síðla sumars. Þess vegna, til að upplifa gilið og nærumhverfi þess sem best, er ráðlagt að heimsækja svæðið frá byrjun júní og fram í ágúst.

Aðkoma að Stuðlagili er best frá þjóðvegi eitt í Jökuldal hvort sem komið er að norðan eða austan. Efri Jökuldalsvegur eins og hann heitir liggur upp frá hringveginum og tekur aksturinn um 20 mínútur. Áður en þú leggur af stað þarftu að ákveða það mikilvægasta við ferðina og það er: hvernig viltu upplifa Stuðlagil?

Það eru tvær leiðir. Önnur er að keyra upp efri Jökuldal alla leið að bænum Grund og leggja á sérútbúnu bílastæði og ganga niður á útsýnispall sem byggður hefur verið. Þarna er hægt að sjá gilið en mörgum finnst skorta nálægð og óskert útsýni sem svo vel þekkist af samfélagsmiðlum. Hin leiðin, og sú sem höfundur kýs iðulega, er að beygja af veginum við bæinn Hákonarstaði, að brúnni að bænum Klausturseli sem liggur sunnan megin við Jöklu. Að því sem best er vitað er ekki búið að taka í gagnið bílastæði sem eigendur Klaustursels hafa áformað þannig að best er að leggja við brúna, ganga yfir hana og fylgja gönguleið sem liggur alla leið að Stuðlagili. Taka skal fram að þessi leið er um fimm kílómetrar aðra leiðina en mjög þægileg.

Að lokum er best að deila einu mikilvægu atriðið sem sá sem þetta skrifar kann að iðrast síðar og það er að heimsækja Stuðlagil seint á sumarkvöldi eða um klukkan sjö til átta á morgnana. Þannig færðu að upplifa gilið í fallegri birtu og oftast kyrrð og ró.

Gott að vita:

  • Það tekur um klukkustund að keyra frá Egilsstöðum og upp í efri Jökuldal.
  • Taktu með nesti, sérstaklega ef þú ætlar að ganga alla leið að gilinu.
  • Ef þú ert í ævintýraskapi gæti verið gaman að halda áfram upp veginn að Hafrahvammagljúfrum en bara ef þú ert á góðum fjórhjóladrifnum bíl.mbl.is