Næsti instagram-foss Íslands?

Fljótsdalur á Héraði er svæði sem er krökkt af náttúruperlum sem hentar allri fjölskyldunni og útivistarfólki. 

Má þar fyrst nefna Hallormsstaðarskóg sem mörgum finnst státa af besta tjaldsvæði landsins og mörgum skemmtilegum gönguleiðum. Innarlega í Fljótsdal, rétt áður en vegurinn leiðir fólk upp á hálendið í átt að Kárahnjúkavirkjun, er einn stórkostlegasti foss landsins, Hengifoss, sem verður líklega næsti instagram-foss landsins.

Það sem heillar mest við Hengifoss er umgjörðin. Stórt gilið rammar hinn 128 metra háa Hengifoss fallega inn og rauðu jarðlögin sem byrjuðu að myndast fyrir milljónum ára gera svæðið einstakt. Það tekur um 90 mínútur að ganga upp og niður og það er hverrar mínútu virði og hrósa ber hvernig staðið er að aðgengi og hafa göngustígar verið lagðir af kostgæfni.

Það sem er skemmtilegt við svæðið er að það er hægt, á einum degi, að fara frá Egilsstöðum, inn í Hallormstaðarskóg, skottast upp að Hengifossi, fá sér að borða á Skriðuklaustri og keyra síðan upp á Kárahnjúkavirkjun og yfir hana og niður að Hafrahvammagljúfrum. Það er síðan hægt að keyra niður í efri Jökuldal og enda frábæran dag í kvöldsólinni við Stuðlagil.

Gott að vita:

  • Um 30 km eru frá Egilsstöðum að bílastæðinu við Hengifoss.
  • Stutt er að fara á Skriðuklaustur eftir gönguna og fá sér veitingar og kynna sér sögu staðarins.
  • Ef þið eruð í ævintýrahug mæli ég með óbyggðasafninu innst í Fljótsdal. mbl.is