Ferðin með Swingersklúbbnum eftirminnilegust

Sandra og Hugleikur Dagsson vinur hennar í Kødbyen í Kaupmannahöfn. …
Sandra og Hugleikur Dagsson vinur hennar í Kødbyen í Kaupmannahöfn. Þau stjórna hlaðvarðinu Vídjó saman. Ljósmynd/Aðsend

Sandra Barilli er framleiðandi, tónlistarbransakelling og hlaðvarpsstýra í Vidjó með Hugleiki Dagssyni. Hún ætlar að bíða með utanlandsferðir þar til að kórónuveirufaraldrinum lýkur. Hún á margar góðar minningar frá ferðalögum sínum, þar á meðal er ferð til Kaupmannahafnar með vinahópi sem ber óvenjulegt nafn. 

Hvernig ertu vön að ferðast?

„Stundum með vinum, stundum með fjölskyldunni og stundum vegna vinnu. Ég hef bæði keypt mér flugmiða með ársfyrirvara og dagsfyrirvara, og hvort tveggja er jafnskemmtilegt.
Eftir að ég uppgötvaði að ferðast bara með handfarangur þá gerði ég það bara. Núna dreymir mig um að sitja í átta tíma í millilendingu á einhverjum leiðinlegum flugvelli í smáborg í Evrópu þar sem ég þekki engin nöfn á veitingastöðunum og eina sem er í boði eru samlokur með lélegu áleggi í allt of þykku brauði og einu drykkirnir eru ávaxtadjús úr þykkni og vont kaffi ... Í leit að innstungu sem er nálægt þægilegu sæti. Þetta er fáránleg tilfinning.“

Hvaða staður er fallegasti staður á Íslandi?

„Borgarfjörður eystra og Galtarviti í Keflavík.“

Var sumarið þitt í fyrra á einhvern hátt öðruvísi en önnur sumur?

„Ég var að vinna hjá Reykjavíkurborg við skipulagningu Menningarnætur, sem var svo hætt við. Þannig að það var algjörlega einstakt. Annars ferðaðist ég aðeins um Snæfellsnes og fór á Vestfirði, sem er alltaf óskaplega gaman.“

Sandra ásamt dætrum vina sinna í verslun í Lissabon.
Sandra ásamt dætrum vina sinna í verslun í Lissabon. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér uppáhaldsborg í útlöndum?

„Reglulega klæjar mig að komast til London, og helst að ganga um hana í smá rigningarúða. Ég bjó þar einu sinni og finnst hún alltaf jafnyndisleg, og er alltaf jafnfegin að vera komin aftur heim í Vesturbæinn. Svo er Lissabon alveg frábær, en mig langar alltaf mest bara að flytja þangað, eða dvelja þar í marga mánuði allavega.“

Eftirminnilegasta ferðalag sem þú hefur farið í?

„Þegar ég fór með Swingersklúbbnum til Köben á opnun á myndlistarsýningu vinar okkar. Swingersklúbburinn er, ólíkt því sem nafnið kann að gefa til kynna, einungis vinahópur.“

Sandra vinnur í tónlistarbransanum. Hér er hún ásamt Reykjavíkurdætrum í …
Sandra vinnur í tónlistarbransanum. Hér er hún ásamt Reykjavíkurdætrum í Berlín. Ljósmynd/Aðsend

Hefur þú ferðast eitthvað erlendis í Covid eða er komin útþrá í þig?

„Ég held ég fari bara út þegar allt vesenið er búið, þar sem ég get trillað gegnum öryggisleitina með farmiðann í símanum.“

Hvert dreymir þig um að fara?

„Til vinkonu minnar í Los Angeles sem er að fara að byggja sundlaug í garðinum sínum. Ég held að sundlaugin verði risin um leið og síðasti Covid-hóstinn glymur.“

mbl.is