Ásdís og Daniel giftu sig á furðulegum stað

Á sumarsólstöðum 2019 gekk listakonan Ásdís Sif Gunnarsdóttir í það heilaga með manni sínum Daniel Leeb kvikmyndagerðarmanni. Athöfnin fór fram á einum furðulegasta stað landsins en staður þessi kallast Heimskautsgerði, stendur á hæð sem kallast Melrakkaás og er rétt ofan við bæinn Raufarhöfn.

Enginn bær á Íslandi stendur jafn nálægt heimskautsbaugi og Raufarhöfn og það hefur verið upplifun margra að hvergi sé jafn magnað að upplifa sumarsólstöðurnar og í Heimskautsgerðinu, enda leikur sólarljósið þar stærsta hlutverkið. Kannski svipuð stemning og að vera við Stonehenge á Englandi en staðurinn minnir um margt á það og er álíka smekkhlaðinn dularfullum trúarlegum táknum og merkingum.

Lúpínublómaregn og glas brotið að hætti gyðinga

Til athafnarinnar mættu vinir þeirra og vandamenn frá öllum heimshornum en Ásdís segir að þó að þau hafi verið gefin saman að sið ásatrúar hafi þetta verið einskonar fjöltrúarbragða-hjónavígsla.

„Raufarhöfn varð mjög alþjóðlegur bær í þessa tvo sólarhringa sem við vorum þar enda kom fólk að úr öllum áttum úr heiminum. Daniel er af gyðingaættum í New York en í þeirra sið tíðkast það að karlinn stígi á ákveðna gerð af glasi þegar vígslunni er lokið. Þetta á að innsigla hamingju í hjónabandinu,“ útskýrir Ásdís og bætir við að frænka eiginmannsins hafi flogið frá Bandaríkjunum með glasið meðferðis í sérstökum poka. „Svo vorum við líka með mjög fínar brúðkaupshálsfestar frá vinum okkar á Havaí og Kristín Björk vinkona mín lagði sitt af mörkum með því að búa til brúðarkrans úr lúpínu svo eitthvað sé nefnt. Svo var þeytt yfir okkur lúpínublómaregni í stað hrísgrjóna þegar athöfninni lauk en fyrir því stóð Ólöf Arnalds tónlistarkona sem gaf okkur líka saman,“ rifjar hún upp glöð í bragði.

Gríðarstórt mannvirki tileinkað goðum og geislum

Heimskautsgerðið var lengi í bígerð áður en verkinu var hrint í framkvæmd og enn er unnið að því. Fyrsta hugmyndin kom frá Erlingi Thoroddsen, þáverandi hótelstjóra, en það var listamaðurinn og fyrrverandi allsherjargoðinn Haukur Halldórsson sem teiknaði gerðið og útsetti hugmyndirnar. Síðustu árin hefur ríflegum styrkjum verið varið í verkefnið en því er ætlað að laða ferðamenn til Raufarhafnar og hefur tekist nokkuð vel. Mannvirkið er ansi stórt, alls 54 metrar að þvermáli, girt hlöðnum vegg, með hlið sem opnast mót höfuðáttunum. Allt grjót sem notað var í hleðsluna kemur úr grjótnámu Raufarhafnarhrepps og stærstu steinarnir vega allt að þrjú tonn.

Ásdís segir bæjarbúa hafa verið einstaklega hlýlega og hjálpsama í kringum allt sem sneri að undirbúningi fyrir athöfnina og á stóra daginn sjálfan. Gestum þeirra var mjög vel tekið og flestir gistu í Hreiðrinu og á Hótel Norðurljósum sem hún segir dásamlegan gististað og nefnir þá sérstaklega Hólmstein Helgason hótelstjóra sem tók sig meðal annars til og bjó til brennu fyrir þau á annan í brúðkaupi. Hún segir að allir brúðkaupsgestir hafi skemmt sér frábærlega þó veðurguðirnir hafi verið með smá vesen á stóra deginum.

„Hann Haukur listamaður sagði mér einu sinni að stór partur af hugsuninni í kringum Heimskautsgerðið hefði einmitt verið að þar mætti gefa saman hjón. Í miðju hringsins er tíu metra há súla, sem hvílir á fjórum stöplum. Bilin á milli stöplanna vísa að höfuðáttunum fjórum, þannig að miðnætursólin birtist í gegnum bilið sem snýr að norðurhliðinu. Svo stendur til að setja tilskorið ljósbrotsgler í toppinn sem brýtur sólarljósið upp í frumlitina. Þetta er alveg stórkostlegur staður sem ég hvet alla til að fara að skoða. Sérstaklega á sumarsólstöðum. Það er líka allt öðruvísi að upplifa sólstöðurnar þarna því sólin er svo mikið bjartari og dagurinn hvergi lengri. Það er að segja ef skýin eru ekki fyrir,“ segir hún og bætir við að akkúrat á brúðkaupsdaginn hafi þau ekki verið neitt ofurheppin með veður en daginn eftir hafi dregið frá og sólin baðaði alla með geislum sínum.

„Við giftum okkur á miðnætti og það var voða kalt, þoka og allir dúðaðir og í regnfötum. Ég náði reyndar að vera í hvítri úlpu en það var ekki auðvelt að klæða sig upp á fyrir þetta,“ segir hún og skellihlær. „En svo bætti sólin okkur þetta upp næsta dag því þá mætti hún í öllu sínu veldi og gladdi bæði okkur og gestina sem höfðu lagt á sig langt ferðalag, bæði frá Reykjavík og öðrum stöðum í heiminum. Raufarhöfn er ekki staður sem maður skreppur bara til í dagsferð en það er algerlega þess virði að fara þangað. Ég elska þennan magnaða og einstaka stað,“ segir Ásdís sem fékk hugmyndina að því að gifta sig í Heimskautsgerði tíu árum fyrr þegar hún vann að því að setja upp sýningu og fara með gjörning á Kópaskeri en þá dvaldi hún á staðnum og heillaðist upp úr skónum.

Norskir þungarokkarar í keppni við óléttumyndir

„Í fyrra fórum við fjölskyldan hringinn og auðvitað stoppuðum við á Raufarhöfn á sólstöðunum og heimsóttum Heimskautsgerðið. Þá var veðrið algerlega æðislegt, heiðskírt og glampandi sól sem endurvarpaði draumkenndum regnboga yfir allt. Daníel náði að taka fallegar óléttumyndir af mér en það var hægara sagt en gert að koma því við þar sem einhverjir ógnandi norskir dauðarokksgaurar voru mættir á svæðið til að gera vídeó,“ segir hún og skellir upp úr. „Það er samt kannski ekki skrítið að þeir hafi valið staðinn því hann er alveg magnaður og fullkominn til að taka upp dramatísk vídeó og fallegar ljósmyndir,“ segir þessi skemmtilega listakona að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert