14 fjölskylduvænar hugmyndir frá Akureyri

Hjalteyri er lítið myndrænt þorp í um tuttugu mínútna akstursfjarðlægð …
Hjalteyri er lítið myndrænt þorp í um tuttugu mínútna akstursfjarðlægð frá Akureyri.

Fjölskyldur sem heimsækja höfuðstað Norðurlands í sumar hafa úr nægri dægradvöl að velja á Akureyri og nágrenni. Hér eru nokkrar fjölskylduvænar hugmyndir en listinn er þó engan veginn tæmandi. 

1. Kanínur, strandblak og leiktæki

Ferð í Kjarnaskóg klikkar aldrei enda um frábært útivistarsvæði að ræða. Í skóginum er strandblaksvöllur, þrjú leiksvæði með fjölbreyttum leiktækjum, góðar göngu- og hjólaleiðir, kanínur til að eltast við og lækur til að vaða í. Þá er skógurinn frábær staður ef stærri fjölskyldur eða vinahópar vilja hittast og grilla saman því þar eru nokkur yfirbyggð grillsvæði.

2. Kaffi, bækur og tarotspá

Á rigningardögum getur verið sniðugt fyrir barnafólk að leita afdreps í Amtsbókasafninu á Akureyri. Barnahorn safnsins er mjög gott og þá er líka kaffihúsið Orðakaffi í sama húsnæði og bókasafnið sem er mikil blessun fyrir þreytta foreldra. Á meðan börnin lita eða skoða bækur geta foreldrarnir gleymt sér yfir tímaritum, kaffibolla og gómsætu bakkelsi. Þá er líka alltaf heitur matur í hádeginu á Orðakaffi. Kaffihúsið Sykurverk er annað barnvænt kaffihús á Akureyri en þar freista ekki bara flottar kökur krakkanna heldur er þar líka ágætisbarnahorn. Fornbókaverslunin Fróði er annar staður sem gaman er að heimsækja fyrir krakka sem hafa gaman af lestri. Þar eru ýmsar forvitnilegar bækur, bæði fyrir börn og fullorðna. Þá er líka hægt að láta spá fyrir sér á staðnum en annar eigandi bókabúðarinnar les bæði í lófa og leggur tarot. Ekki er nauðsynlegt að panta í spá heldur bara að mæta á staðinn.

3. Sjósund, hvalir og saltfiskpitsa

Hauganes er í hálftíma aksturfjarðlægð frá Akureyri en þangað er virkilega gaman að koma með börn. Krakkar elska að busla í sjónum og fara svo í heitu pottana í Sandvíkurfjöru. Einn potturinn er sérlega vinsæll hjá börnum en hann er eins og bátur í laginu. Eftir buslið er tilvalið að kíkja á veitingastaðinn Baccalá bar. Séu matvandir krakkar með í för má auðveldlega plata fisk ofan í þá með því að panta saltfiskpitsuna á matseðlinum. Þá er líka hægt að skella sér í hvalaskoðun frá Hauganesi með elsta hvalaskoðunarfyrirtæki landsins sem býður upp á siglingu á tveimur eikarbátum.

Hauganes er í hálftíma aksturfjarðlægð frá Akureyri en þangað er …
Hauganes er í hálftíma aksturfjarðlægð frá Akureyri en þangað er virkilega gaman að koma með börn.

4. Kajak, list og fjöruferð

Hjalteyri er lítið myndrænt þorp í um tuttugu mínútna akstursfjarðlægð frá Akureyri. Þar er rekin kajakleiga og hægt að velja um að fara á kajak út í sjó eða á tjörnina í þorpinu, sem er þægilegur kostur þegar börn eru með í för. Þá er Hjalteyri frábær staður fyrir fjölskyldur sem langar í fjöruferð sem svo er hægt að enda á baðferð í pottinum við gömlu síldarverksmiðjuna. Í Verksmiðjunni eru reglulega haldnar sýningar og ýmsir listviðburðir og því gaman að stíla ferð á Hjalteyri inn á að eitthvað sé í gangi þar. Fylgjast má með dagskránni á facebook-síðunni Verksmiðjan á Hjalteyri.

5. Brúður frá ýmsum löndum

Öll fjölskyldan getur haft gaman af því að heimsækja Safnasafnið við Svalbarðseyri sem inniheldur alls konar forvitnileg listaverk, mikið til eftir jaðarlistamenn. Nýjar sýningar eru settar upp á hverju sumri en svo eru líka fastar sýningar í húsinu eins og brúðusafn hússins. Þar er að finna um 400 brúður sem eru íklæddar þjóðbúningum frá öllum heimshornum. Á leiðinni á Safnasafnið er gaman að stoppa á Flóamarkaðinum í Sigluvík en þar er opið alla föstudaga, laugardaga og sunnudaga milli kl. 13 og 17. Þetta er fjórtánda sumarið sem markaðurinn er haldinn og kennir þar iðulega ýmissa grasa.

Öll fjölskyldan getur haft gaman af því að heimsækja Safnasafnið …
Öll fjölskyldan getur haft gaman af því að heimsækja Safnasafnið við Svalbarðseyri sem inniheldur alls konar forvitnileg listaverk, mikið til eftir jaðarlistamenn.

6. Upp á fjall með lyftu

Stundum getur verið erfitt að ná börnum með í gönguferðir, sérstaklega ef þau eru ekki vön löngum göngum. Að nota stólalyftuna í Hlíðarfjalli til að koma fjölskyldunni út í náttúruna getur þá verið spennandi kostur. Þetta er þriðja sumarið sem skíðalyftan er opin að sumarlagi. Í sumar verður hægt að nýta sér lyftuna fjóra daga vikunnar, frá júlíbyrjun og út ágúst, eða frá fimmtudegi til sunnudags. Hægt er að kaupa miða á staðnum. Í Hlíðarfjalli er góð aðstaða bæði fyrir hjóla- og göngufólk, og getur hjólafólk tekið hjólin með í lyftuna. Frá Strýtuskálanum er glæsilegt útsýni og þeir sem ekki vilja koma sér sjálfir niður af fjallinu geta tekið lyftuna aftur til baka niður. Tilvalið er að útbúa gott nesti fyrir ferðina og njóta þess á fjallinu.

7. Flækjan, frisbígolf og lúxuste

Flækjan, Trektin og Fossinn eru heitin á einum flottustu sundrennibrautum landsins sem staðsettar eru í Sundlaug Akureyrar. Krakkar þreytast seint á því að leika sér þar en auk þess eru tvær smábarnalaugar í sundlauginni. Til að gera sundferðina enn ævintýralegri er gaman að nota útiklefana. Eftir sundferðina er tilvalið að kíkja á endurnar á Andapollinum og gefa þeim brauð. Þá er líka hægt að kíkja í sundlaugargarðinn sem er með tveimur ærslabelgjum, rólum og fleiri leiktækjum. Rétt hjá sundlauginni er svo Hamarskotstún sem er með góðum frisbígolfvelli. Þá má gera vel við fjölskylduna með lúxuste og með því á „high tea“ á Icelandair-hótelinu milli kl. 14 og 17. Hótelið er í göngufæri við bæði sundlaugina og Hamarkotstún.

8. Heimskautsbaugur og lundar

Ferð út í Grímsey er sannarlega ógleymanlegt fjölskylduævintýri. Þar er klassískt að ganga yfir heimskautsbaug sem liggur þvert yfir eyjuna. Þá er hægt er að kaupa skjal í eyjunni, undirritað af oddvitanum, sem staðfestir að viðkomandi hafi komið til Grímseyjar og stigið fæti norður fyrir heimskautsbaug. Allir krakkar hafa gaman af því að skoða lundana í návígi og svo er hægt að fá sér sundsprett í nyrstu sundlaug landsins sem er nýbúin að fá andlitslyftingu. Frá Dalvík siglir ferjan Sæfari fimm daga í viku út í Grímsey yfir hásumarið. Bátsferðin tekur þrjá tíma og er stoppað í eynni 2-4 klst. eftir dögum. Vilji fólk stoppa lengur þá er gott tjaldstæði í Grímsey sem og nokkur gistiheimili. Á vefnum Halló Akureyri er að finna fimm mismunandi gönguleiðir um Grímsey og þá er hægt að leigja fjallahjól hjá Arctic Bikes til að ferðast um eyjuna.

9. Húsdýr, hey og vaffla á priki

Heimsókn í Húsdýragarðinn Daladýrð í Fnjóskadal gleður pottþétt þau allra yngstu. Ef keyrt er í gegnum Vaðlaheiðargöng er aðeins um 20 mínútna keyrsla þangað frá Akureyri. Fyrir utan að skoða alls konar dýr í návígi, meðal annars hrút með fjögur horn, er hægt að hoppa í heyi á staðnum, prófa ýmis leiktæki og fá sér vöfflur á priki. Foreldrarnir geta svo slakað á í sófahorninu á staðnum með kaffibolla. Þá má hnýta göngutúr um Vaglaskóg eða sundferð á Illugastaði við ferðina.

Heimsókn í Húsdýragarðinn Daladýrð í Fnjóskadal gleður pottþétt þau allra …
Heimsókn í Húsdýragarðinn Daladýrð í Fnjóskadal gleður pottþétt þau allra yngstu.

10. Rúntað um Hrísey á traktor

Frá Árskógssandi eru ferðir mörgum sinnum á dag út í Hrísey en siglingin þangað tekur aðeins um 15 mínútur. Í Hrísey er hægt að ganga hring um fuglavarpland, fara í bílferð um eyjuna á traktorstaxa, heimsækja safn og fara í sund. Þá er frábært leiksvæði í Hrísey með ærslabelg og aparólu. Við Hríseyjarheimsókn er svo hægt að hnýta heimsókn í Bjórböðin á Árskógssandi. Tilvalið er að dýfa sér í útipottana og bjóða krökkunum upp á fisk og franskar eða míníborgara á veitingastaðnum en eiga sjálft bjórbaðið inni þegar börnin eru ekki með.

Í Hrísey er hægt að ganga hring um fuglavarpland, fara …
Í Hrísey er hægt að ganga hring um fuglavarpland, fara í bílferð um eyjuna á traktorstaxa, heimsækja safn og fara í sund.

11. Íslenskur risi og Bakkabræður

Bíltúr á Dalvík getur verið ágætisfjölskylduskemmtun en frá Akureyri tekur um 40 mínútur að keyra þangað. Á Dalvík er nauðsynlegt að stoppa á kaffihúsinu Gísli, Eiríkur, Helgi sem er sannarlega upplifun bæði fyrir augu og munn. Eigendur kaffihússins eru miklir safnarar og kaffihúsið er mjög skemmtilega innréttað. Nafn kaffihússins vísar í sögurnar um Bakkabræður en tenging við þá leynist í hverju horni. Flestum krökkum finnst líka gaman að heimsækja Byggðasafnið á Dalvík þar sem er m.a. að finna upplýsingar um stærsta mann Íslandssögunnar, risann Jóhann Svarfdæling. Ef nytjamarkaðurinn Litla loppan er opin er gaman að kíkja þangað og svo er tilvalið að stoppa á Völlum í Svarfaðardal þar sem er rekin sveitabúð með góðgæti beint frá býli. Þá er tilvalið að skella sér í sund annaðhvort á Dalvík eða í sundlauginni á Þelamörk.

12. Jólaskraut og íslenskur rjómaís

Eyjafjarðarhringurinn er klassískur bíltúr hjá mörgum fjölskyldum sem heimsækja Akureyri. Fyrsta stopp í bíltúr um Eyjafjarðarsveit gæti verið Hælið á Kristnesi sem er setur um sögu berklanna. Þar er líka kaffihús. Næsta stopp gæti verið Jólahúsið við Hrafnagil þar sem jólin lifa allt árið. Þar er líka verslunin Bakgarðurinn sem selur skandinavíska nytjahluti fyrir heimilið og ýmsa sælkeravöru. Þar er yndislegt að setjast út í garðinn með kaffibolla og kruðerí úr versluninni. Þessu næst er hægt að fara í sund á Hrafnagili. Eftir sundið er tilvalið að keyra í Holtsel og smakka á íslenskum rjómaís. Innst inni í Eyjafirði er eitt sérkennilegasta safn landsins að finna, Smámunasafnið, með alls konar forvitnilegum hlutum. Þá er tilvalið að enda bíltúrinn á Kaffi Húsi þar sem er gott leikhorn fyrir börnin og alls konar barnvænlegar veitingar. Toppurinn á heimsókninni er svo að fá að fara í fjósið og kíkja á kýrnar.

13. Á bretti á sjó og landi

Braggaparkið er innanhússaðstaða sem opnaði á Akureyri í fyrra fyrir hjólabretti, línuskauta, hlaupahjól og BMX-hjól. Þeir sem ekki eru með eigið bretti meðferðis geta fengið lánað á staðnum sem og hjálma. Þá er líka hægt að skella sér á bretti út á sjó en tvö fyrirtæki á Akureyri bjóða upp á róðra á standbrettum (SUP). Fyrir byrjendur eru aðstæður á Pollinum frábærar þar sem hann er oftar en ekki alveg spegilsléttur. Það gæti því verið skemmtileg áskorun fyrir alla í fjölskyldunni að prófa þessa ört vaxandi íþrótt á meðan dvalið er fyrir norðan.

14. Flugvélar, mótorhjól og Brynjuís

Á Akureyri eru nokkur áhugaverð söfn sem krakkar gætu haft gaman af að heimsækja. Tilvalið er að hjóla eða ganga úr miðbænum eftir stígnum sem liggur meðfram sjónum og alla leið út á flugvöll. Á bakaleiðinni er svo gengið í gegnum innbæinn, að sjálfsögðu með stoppi í ísbúðinni Brynju. Á þessari leið er hægt að stoppa í Mótorhjólasafni Íslands, sem hefur að geyma sögu mótorhjóla á Íslandi í yfir 100 ár eða í Flugsafni Íslands þar sem er að finna ýmsar sögufrægar flugvélar. Þá er Leikfangasafnið í Innbænum líka áhugavert en þar er að finna alls konar leikföng frá liðinni tíð sem vekja pottþétt upp nostalgískar minningar hjá fullorðna fólkinu.

Á rigningardögum getur verið sniðugt fyrir barnafólk að leita afdreps …
Á rigningardögum getur verið sniðugt fyrir barnafólk að leita afdreps í Amtsbókasafninu á Akureyri.
Heimsókn í Húsdýragarðinn Daladýrð í Fnjóskadal gleður pottþétt þau allra …
Heimsókn í Húsdýragarðinn Daladýrð í Fnjóskadal gleður pottþétt þau allra yngstu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert