Geggjaðasta gil landsins

Grænt, djúpt og með fossum sem falla niður snarbrattar hlíðar. Er hægt að biðja um stórbrotnara gil til að skoða? Ef svarið er nei skaltu á leið þinni um Suðausturland stoppa við Múlagljúfur til að sjá náttúrufegurð sem þú hefur hugsanlega ekki upplifað áður.

Múlagljúfur nær langleiðina upp að Vatnajökli og er staðsett milli skriðjöklanna Hrútárjökuls til austurs sem brotnar niður í Fjallsárlón og Kvíárjökuls til vesturs. Það tekur ekki nema um 10 mínútur að keyra frá Múlagljúfri að Jökulsárlóni.

Það getur verið örlítið flókið að finna slóðann sem liggur frá þjóðvegi 1 að upphafi gönguleiðarinnar en hann er milli bæjarins Kvískerja og afleggjarans inn að þjónustumiðstöðinni við Fjallsárlón og sést vel á map.is.

Þegar búið er að keyra slóðann á enda, og hann er fær öllum bílum, tekur við 40-50 mínútna ganga upp gilbarminn vestan megin. Það er kjörið að hafa fyrsta stopp á leiðinni þar sem fossinn Hangandifoss fellur niður bratta eystri hlíð gljúfursins. Kjörið að smella af nokkrum myndum og taka inn fegurðina, útsýnið. Ofar tekur svo við brattari hluti leiðarinnar og þá fer að sjást betur hið hrikalega landslag sem gljúfrið og umhverfi þess er þekkt fyrir. Innst í gljúfrinu er síðan Múlafoss sem liggur undir snarbrattri hlíð og er í raun síðasti fossinn í röð fossa sem liggja langleiðina upp að snjólínu.

Það er þægilegt og auðvelt að upplifa Múlagljúfur. Gangan er ekki krefjandi og útsýnið sem í boði er þegar upp er komið er slíkt að sá sem þetta skrifar kemur við ótal sinnum á ári til að upplifa gljúfrið og svæðið í kring.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert