Tækifærissinni þegar kemur að útivist

Kristín Sverrisdóttir í fallhlífarstökki í Voss í Noregi.
Kristín Sverrisdóttir í fallhlífarstökki í Voss í Noregi.

Kristín Sverrisdóttir, viðskiptastjóri hjá Akademis, er mjög venjuleg stelpa sem reynir að hafa gaman af lífinu og er fjölbreytt útivist hennar aðaláhugamál. Það fer eftir aðstæðum hvaða útivist verður fyrir valinu. Vetraríþróttir eins og snjóbretti eiga hug hennar allan langt fram á sumar en brimbrettið er heldur ekki langt undan. 

Kristín segir að það fari eftir árstíma hvaða útivist hún stundar og líkir sér helst við tækifærissinna. „Þegar ég var í Mexíkó lærði ég að kafa og varð alveg heilluð af því, þegar ég var í Noregi nýtti ég veturna á fjöllum við að renna mér á snjóbretti og á sumrin var ég í háloftunum að læra að „fljúga“ í fallhlífarstökki. Ég fór í skiptinám til Ástralíu með það í huga að eyða sem mestum tíma í sjónum á brimbretti, en það fór ekki betur en svo að ég fótbraut mig eftir eina viku og gat þá gleymt brimbrettadraumnum. Ég gafst ekki upp samt, keypti mér bretti og hnausþykkan blautbúning til þess að geta brimbrettast á Íslandi í staðinn,“ segir Kristín. 

Kristín í hellaköfun í Mexíkó.
Kristín í hellaköfun í Mexíkó.

Kristín stundar mikið klifur og klifrar í Klifurhúsinu í Reykjavík. Á sumrin nýtir hún góða veðrið og klifrar úti í klettum hvort sem það er á Íslandi eða í heitari löndum. Hún gengur einnig upp fjöll með bretti á bakinu og rennir sér niður. „Ég vonast eftir að ná að gera þetta aðeins lengur í sumar áður en snjórinn hverfur alveg. Ég var einmitt að sjá fréttir um snjókomu fyrir norðan; á sama tíma og það hryggir mig að sumarið ætli að láta svona við okkur gleður það mig líka að ögn meiri snjór bætist í fjöllin.“

Kristín að klifra í Grikklandi.
Kristín að klifra í Grikklandi.

Hvað færð þú út úr því að þeysast upp og niður fjöll og renna þér niður?

„Það sem ég fæ út úr því er hreyfing, frískt loft og góður félagsskapur. Ferðin skiptist þannig að sirka 97% af tímanum fara í að labba upp og 3% að renna sér niður. Til þess að njóta ferðarinnar verður þér að þykja gaman að fjallgöngunni sjálfri. Verðlaunin eru svo að sjálfsögðu að renna sér niður og það sem ég fæ út úr því er eiginlega bara hrein og tær gleði. Alveg eins og lítill krakki í rennibraut.“

Er einhver fjallaferð eða staður sem stendur upp úr?

„Já, ég verð að segja fyrsta alvöruferðin mín utan brautar í Noregi. Þá tókum við lyftuna eins hátt og við gátum, löbbuðum rest og fórum niður fjallið hinum megin. Þar var allt á kafi í púðursnjó, brekkan var löng og fjölbreytt í gegnum skóg og yfir opið svæði. Ég fór með skemmtilegu fólki sem ég hafði kynnst í fjallinu og þau voru svo miklu betri en ég að ég þurfti að einbeita mér þvílíkt til þess að halda í við þau. Brekkan endaði á litlum mjóum malarvegi sem var 100% klaki þannig að ég fékk allan skalann í þessari ferð. Þarna neðst var lítill fallegur sveitabær sem einn þeirra átti og þar fengum við okkur bjór og pulsur eftir góðan dag. Ógleymanlegt.“

Í snjóbrettaferð á Tröllaskaga.
Í snjóbrettaferð á Tröllaskaga.

Áttu þér uppáhaldsstað í öllum heiminum? 

„Ég held ég verði að svara þessu með klisju og segja sveitin hennar mömmu í Skorradalnum. Mér finnst fátt skemmtilegra en að ferðast til nýrra landa en það er alltaf svo rosalega gott að koma heim í paradís.“

Eftirminnilegasta ferðalagið?

„Ég get ekki gert upp á milli tveggja ferðalaga. Annað þeirra er þegar ég eyddi sumrinu í Kína með Helgu vinkonu minni. Við fórum í sjálfboðaliðastarf með börnum í pínulítið sveitaþorp í Yunnan-héraði. Þarna vorum við nýorðnar 18 ára og við lærðum svo mikið nýtt í þessu ferðalagi, bæði lærðum við á heiminn og á okkur sjálfar. Að fara alveg grænn í svona allt annan heim er nokkuð sem ég mæli sterklega með. Ég held ég geti sagt að þetta hafi markað upphafið að minni ævintýraþrá.

Kristín fór í eftirminnilega ferð með Helgu vinkonu sinni til …
Kristín fór í eftirminnilega ferð með Helgu vinkonu sinni til Kína þegar hún var 18 ára.

Hitt ferðalagið var mánaðarlöng dvöl í Venesúela með Brynju vinkonu minni þegar við vorum 21 árs. Þá er sérstaklega minnisstætt tíu daga ferðalag okkar um frumskóginn. Við ferðuðumst í kajak og gistum í hengirúmum. Við veiddum og borðuðum pirañafiska, hittum villtar kyrkislöngur, vorum „étnar lifandi“ af risastórum moskítóflugum, hittum fólk sem bjó í frumskóginum, týndumst og ég þurfi að taka á honum stóra mínum vegna hræðslu og hrolls út af kóngulóm og öðrum skordýrum. Ég man eftir því þegar við vorum nýlögð af stað á fyrsta degi, þá þurftum við að beygja okkur undir trjábol sem hafði fallið til hliðar yfir ána. Þar var þykkasti kóngulóarvefur sem ég hafði nokkurn tíman séð og minnti mig á vefinn hennar Shelob úr Lord of the Rings. Ég man að ég hugsaði bara „jæja, hérna byrjar þetta“, lokaði augunum og dembdi mér í gegn. Þar með byrjaði eitt mesta ævintýri lífs míns.“

Krístin fór í eftirminnilega ferð til Venesúela. Hér er hún …
Krístin fór í eftirminnilega ferð til Venesúela. Hér er hún að veiða Piranha fiska með heimagerðri veiðistöng úr bambus.


Breyttust ferðavenjur þínar eitthvað í kórónuveirufaraldrinum?

„Já, eins og flestir aðrir hef ég ekkert ferðast erlendis en ég flutti til Íslands frá Noregi og einbeitti mér að vinnu á Íslandi.“

Hefur einhver ferð valdið vonbrigðum? 

„Nei ég get ekki sagt það. Auðvitað eru ekki alltaf frábærar aðstæður og þér gengur ekki alltaf vel. Svo lengi sem þú lítur á þetta allt sem ævintýri geta jafnvel verstu dagarnir verið mjög skemmtilegir. Í versta falli lærir þú af því og verður örlítið sterkari.“

Hvað á að gera í sumar?

„Núna í sumar er ég að vonast eftir nægilega mörgum sólardögum til þess að fara oft út að klifra. Ég er líka að vonast eftir góðum öldum til að bæta mig á brimbrettinu.“

Kristín í fjallabrettaferð á Tröllaskaga.
Kristín í fjallabrettaferð á Tröllaskaga.
mbl.is