Lundahótel opnað í Borgarfjarðarhöfn

Rán Flygenring og Elín Elísabet Einarsdóttir standa að verkefinu en …
Rán Flygenring og Elín Elísabet Einarsdóttir standa að verkefinu en í fyrra opnuðu þær lundabúð. Rán er til vinstri og Elín til hægri. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Brátt geta lundar landsins bókað sér fimm stjörnu lundaholur, snætt síld á morgunverðarhlaðborði og kíkt í lundaheilsulind þar sem lundahótel verður formlega opnað í Borgarfjarðarhöfn á Borgarfirði eystri á laugardaginn, hið fyrsta sinnar tegundar.

„Þetta er allt í vinnslu,“ segir Elín Elísabet Einarsdóttir, önnur listamannanna sem stendur að verkefninu, en ásamt henni stendur Rán Flygenring að verkinu. Í fyrrasumar ráku þær tímabundna lundabúð í fuglaskoðunarhúsinu í Hafnarhólma. „Svo fannst okkur rökrétt framhald að stofna lundahótel á sama stað núna í ár,“ segir hún en verkefnið er styrkt af Brothættum byggðum á Borgarfirði.

mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Heimabruggaður lundi

„Hér erum við að koma fyrir fimm stjörnu lundaholum sem verður bráðum hægt að bóka, fyrir lunda. Svo erum við að setja saman morgunverðarhlaðborð þar sem matseðillinn samanstendur aðallega af síld og sardínum,“ segir Elín en auk þess kemur til greina að hafa heimabruggaðan lunda.

Fyrir lunda? spyr blaðamaður. „Fyrir lunda, já,“ svarar hún. „En mennskir gestir mega líka gæða sér á því á bæði hótelbarnum og morgunverðarhlaðborðinu,“ bætir hún við og segir frá ástæðu byggingar hótelsins. Það sé tilkomið vegna loftslagsbreytinga. „Nú er lundastofninn í vanda. Vegna hlýnunar sjávar er skortur á æti og stofninn fer óðum minnkandi, en samt sem áður er hann veiddur og víða á matseðlum veitingastaða,“ segir hún.

„Við viljum bara bjóða lunda velkomna hér í öruggar fimm stjörnu lundaholur,“ segir hún en holurnar verða tuttugu talsins. Mikið er um lunda og aðra fugla í Borgar- fjarðarhöfn og því líklegt að það verði hreinlega umframeftirspurn. Aðspurð hvort lundar hafi forgang fram yfir aðra fugla svarar Elín játandi. „Já, lundinn er í forgangi hjá okkur,“ segir hún. „Við gerum ráð fyrir því að hafa pláss fyrir þá sem vilja grafa sínar eigin holur og jafnvel aðra farfugla og sjófugla sem gætu viljað nýta sér þetta.“

Lundahótelið er við höfnina á Borgarfirði á móti Hafnarhólma.
Lundahótelið er við höfnina á Borgarfirði á móti Hafnarhólma. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Þá verður móttaka fyrir menn, lendingarpallur fyrir fugla auk heilsulindar. „Þetta er hérna við höfnina og það verður náttúrulega í boði fyrir lundana að skella sér í spa hér í höfninni, svona lundaspa,“ Spurð hvort lundastraumurinn sé farinn að taka við sér eftir afléttingu sóttvarnareglna svarar hún játandi. „Já, það er náttúrulega allt önnur stemning núna,“ segir hún.

Ástæðu þess að lundinn varð fyrir valinu segir Elín vera orðspor lundans sem sem nokkurs konar andlit ferðaþjónustunnar á Íslandi síðustu ár. Þaðan kom hugmyndin að lundabúðinni í fyrra einnig.

„Hann berst fyrir tilveru sinni við strendur Íslands. Hvers á hann að gjalda?“ Þær vilji því endurheimta orðspor lundans „óháð túrismanum sem hann allt í einu var látinn standa fyrir,“ segir Elín. Hægt er að skoða verkefnið og ferlið betur á Instagram-síðu þeirra @nylundabudin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert