Ragnheiður Guðfinna er eyjamær í húð og hár

Gos hafa öðruvísi merkingu fyrir þá sem eru frá Eyjum.
Gos hafa öðruvísi merkingu fyrir þá sem eru frá Eyjum.

Eyjamærin Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir segir sprang mjög skemmtilegt en fólk þurfi að passa sig að slasa sig ekki. Fólk á það nefnilega til að ofmeta alveg getu sína í sprangi. Maðurinn hennar náði til dæmis að skalla sig nokkrum sinnum þegar hann prófaði sprangið fyrst. 

Foreldrar mínir áttu húsið sem hýsir núna Eldheimasafnið. Við mamma fórum þangað saman fyrir nokkrum árum, áður en safnið var sett á laggirnar og það var upplifun sem ég gleymi aldrei. Þótt húsið hafi farið undir hraun þá vissi mamma upp á hár hvar hlutirnir hennar höfðu verið í húsinu. Hún fann meira að segja úrið sitt og einhverja skartgripi. Úrið var auðvitað ónýtt en hún vissi nákvæmlega hvar þessir munir voru geymdir,“ segir Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir sálfræðingur sem er fædd og uppalin í Eyjum.

„Til að fólk geti betur skilið Vestmannaeyinga, og þetta áfall sem fylgdi eldgosinu og mótaði þau til frambúðar, er mjög mikilvægt að skoða þetta safn og ég mæli með að fólk byrji á því þegar komið er til Eyja,“ segir hún og bætir við að pabbi hennar hafi verið sá síðasti til að loka dyrunum að húsinu. „Hann ætlaði bara að skjótast eitthvað út og koma svo aftur til að tengja rafmagnstöfluna af því rafmagninu sló út en það varð auðvitað ekkert úr því þar sem húsið fór undir hraunið,“ segir Ragnheiður sem fæddist sjö árum síðar og bjó því aldrei í húsinu.

Pikkar upp nokkrar lundapysjur

Ragnheiður byrjaði fyrirsætuferil aðeins fjórtán ára og upphófst þá flakk um heiminn. Þegar hún var nítján ára lést faðir hennar og þá hætti hún ferðalögunum og staldraði lengur við í Eyjum en upp úr tvítugu flutti hún á meginlandið. Ragnheiður heimsækir Vestmannaeyjar um það bil tvisvar á ári en segist alveg geta hugsað sér að fara oftar. Hún mætir yfirleitt alltaf á þjóðhátíð nema hvað að hún segist sjaldnar nenna því þegar hún er ólétt en Ragnheiður á þrjá stráka.

„Ég fer að sjálfssögðu í ár. Mæti með allt gengið og húsbílinn á þriðjudegi og byrja svo að smyrja samlokurnar á miðvikudegi. Mamma á reyndar enn íbúð sem ég gisti stundum í og ef hún er ekki laus þá er ég hjá ömmu Steinu,“ segir Ragnheiður og bætir við að lundapysjuleitin sé líka mjög skemmtileg upplifun fyrir krakka. „Þá mætir maður um miðjan ágúst og keyrir um með krakkana á kvöldin. Pikkar upp nokkrar lundapysjur og sleppir þeim svo út í sjó næsta dag,“ segir hún og skellir upp úr enda er þessi siður Eyjamanna kannski pínulítið spaugilegur og framandi fyrir utanaðkomandi.

Ragnheiður Guðfinna mælir með lundapysjuleit með börnunum.
Ragnheiður Guðfinna mælir með lundapysjuleit með börnunum.

Mikilvægt að ofmeta ekki eigin getu í sprangi

Spurð út í sprangið sem er eins konar þjóðarsport eyjarskeggja segir Ragnheiður að fólk verði að gera það á eigin ábyrgð. „Sprang er mjög skemmtilegt en fólk þarf að passa sig að slasa sig ekki. Fólk á það nefnilega til að ofmeta alveg getu sína í sprangi. Maðurinn minn, sem þó er gríðarlega mikill hæfileikamaður á flestum sviðum, náði til dæmis að skalla sig nokkrum sinnum þegar hann prófaði sprangið fyrst. En það þurfti kannski ekki að koma á óvart enda er hann jú uppalinn á Blönduósi,“ segir hún og hlær dátt.

Ragnheiður mælir líka með að göngugarpar skelli sér upp Heimaklett en það sé engan veginn fyrir lofthrædda því leiðin er brött og tindurinn hár. Þá leggur hún einnig til siglingu um eyjarnar og mælir þá með Rib Safari fyrir þá sem vilja smá stuð og spennu en rólegri siglingu með saca.is fyrir þá sem vilja virða fyrir sér fuglalífið, bergið og stórbrotna náttúruna sem er jú alveg einstök í Eyjum og það gildir jú alveg um nokkra eyjarskeggja líka. „Viðar Togga er náungi sem flestir mættu heimsækja því hann er einfaldlega einn besti sögumaður landsins. Alveg ótrúlega skemmtilegur. Svo er Árni Johnsen líka mjög góður karl sem hefur látið gott af sér leiða á staðnum og það er gaman að sjá það sem hann hefur gert í kringum húsið sitt enda skapandi maður.“

Lundapysjunum er sleppt út í sjó næsta dag.
Lundapysjunum er sleppt út í sjó næsta dag.

Metnaðarfyllsta þrettándahátíð landsins

Hvað matinn varðar eru ýmsir góðir valkostir í Eyjum og nefnir hún þá fyrst hinn margrómaða veitingastað Slippinn og Gott sem rekinn er af þeim hjónum Sigurði Gíslasyni og Berglindi Sigmarsdóttur. „Svo er algjört möst að fara á Klett og skella sér á hina goðsagnakenndu langloku á Klettinum eða fá sér pylsu. Ég borða reyndar ekki pylsur sjálf en hjá strákunum mínum er þetta algerlega fastur liður,“ segir hún og nefnir svo að lokum þrettándagleðina í Eyjum sem hún segir engu líka.

„Þetta er án efa metnaðarfyllsta þrettándahátíð sem haldin er á landinu. Þar birtast alls konar tröll, álfar og forynjur úr þjóðsögunum og það er svakalega mikið lagt upp úr búningum og öllu í kringum þetta en hátíðin er alveg borin uppi af sjálfboðaliðum. Svo er hreint mögnuð og mjög metnaðarfull flugeldasýning að hætti eyjamanna í lok gleðinnar,“ segir Eyjamærin Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert