Reglur ekki hertar á Tenerife

Viðbúnaðarstigið á Tenerife var ekki hækkað í gær þrátt fyrir …
Viðbúnaðarstigið á Tenerife var ekki hækkað í gær þrátt fyrir aukinn fjölda smita síðustu daga og vikur. AFP

Stjórnvöld á Kanaríeyjum ákváðu í gær að herða ekki sóttvarnareglur á Tenerife. Fjöldi smita hefur aukist síðasliðna daga. Tenerife er enn á þriðja viðbúnaðarstigi af fjórum en Cran Canaria á stigi tvö. Fuerteventura færist upp á stig 3, La Palma upp á stig 2 og Lanzarote, La Gomera og El Hierro eru á stigi 1. 

Vegna aukins fjölda smita síðastliðna daga og vikur á Tenerife var búist við því að stjórnvöld myndu færa eyjuna upp á fjórða stig. Þá höfðu fyrirtæki í mismunandi geirum, þar á meðal ferðamannageiranum, þrýst á stjórnvöld að hækka viðbúnaðarstigið til að fletja út kúrfuna.

Í gær greindust 690 smit á öllum eyjunum, þar af 391 á Tenerife og 231 á Cran Canaria. Nýgengi síðustu tveggja vikna á eyjunum er 281 smit en alls greindust 6.115. 

Fjöldi ferðamanna hefur streymt til Tenerife undanfarnar vikur, þar á meðal fjöldi Íslendinga. Aukinn fjöldi smita, sem mörg eru af Delta-afbrigðinu, hefur þó ekki verið rakinn beint til aukins fjölda ferðamanna heldur til yngri kynslóða sem ekki þiggja bólusetningu og hundsa sóttvarnareglur. Flest smitin eru á meðal fólks á aldrinum 20-40 ára. 

Samkvæmt reglum um þriðja viðbúnaðarstig á Kanaríeyjum er grímuskylda alls staðar þar sem ekki ert hægt að tryggja 1,5 metra regluna, bæði innan og utandyra. Aðeins fjórir mega koma saman í einu en þau sem búa saman mega vera fleiri saman.

Almenningsgörðum, ströndum og torgum er lokað klukkan tíu á kvöldin og áfengissala er ekki heimil eftir klukkan 10. Veitingastaðir og barir þurfa að loka á miðnætti og næturklúbbar mega ekki vera opnir. 

Canarian Weekly

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert