Magnaði Mjóifjörður

Ferðaþjónustan Sólbrekka í Mjóafirði.
Ferðaþjónustan Sólbrekka í Mjóafirði. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir

Ferðalangar í veðurblíðunni á Héraði á Austurlandi hafa úr fjölmörgum náttúruperlum að velja, kjósi þeir að hífa sig upp úr tjaldstólunum og skoða sig um; Borgarfjörður eystri, Dyrfjöllin og Stórurð, Hengifoss, Húsey, gönguleiðir um Hallormsstaðarskóg að ógleymdu Stuðlagili sem komst mikið í tísku á covidárinu mikla í fyrra.

Firðirnir að sjálfsögðu fyrir sínu en einn þeirra virðist stundum gleymast, sem er þessi mjói, þ.e.a.s. Mjóifjörður. Leiðin niður af Mjóafjarðarheiði er ef til ekki fyrir fólk sem er veikt fyrir hjarta og því augljóslega málið að aka varlega. Ef til vill er mesta áskorunin að missa sig ekki yfir útsýninu á akstri ef veðrið er gott. Svo er líka gott að hugsa til þess að bremsurnar séu í góðu standi. Konfektmolar náttúrunnar raða sér inn eftir firðinum. Sá fyrsti og sennilega sá stórbrotnasti er fossaröðin Klifbrekkufossar, sunnan til í firðinum þegar ekið er niður. Einir sjö fossar, sem hver tekur við af öðrum, niður margra tuga háan hamarinn í botni fjarðarins.

Fjörðurinn mjó sem staðsettur er milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar.
Fjörðurinn mjó sem staðsettur er milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir

Í Mjóafirði er sennilega að finna minnsta þorp landsins sem heitir Brekkuþorp. Þar má finna krúttlega kirkju, Kirkjuhvammskirkju og ferðaþjónustu; gistiheimili og lítið veitingahús. Þar er einnig lítil smábátahöfn. Á vefnum VisitFjardarbyggd.is kemur fram að í firðinum búi að jafnaði 10 manns.

Það er ekki hægt að heimsækja Mjóafjörð án þess að aka út að Dalatanga sem allir hlustendur veðurfrétta kannast við en þar hafa farið fram reglubundnar veðurmælingar frá árinu 1938. Þar er einnig að finna elsta ljósvita landsins sem reistur að frumkvæði norska útgerðar- og athafnamannsins Otto Wathne 1895. Ekið er meðfram skriðum og hamrabrúnum, fram hjá fossum og dalgiljum. Þegar Dalatangi birtist er því líkast sem maður sé staddur á eyju inni í landi. Við Dalatangavita opnast mikið útsýni til norðurs allt að Glettingi og inn í mynni Loðmundarfjarðar og Seyðisfjarðar.

Fari tveir fullorðnir eða fleiri saman er góð hugmynd að skiptast á að aka til baka svo báðir ökuþórar geti notið útsýnis yfir fjörðinn, klettabeltin og endalausa smáfossa hér og þar.

Elsta ljósvita landsins frá 1895 má finna á Dalatanga
Elsta ljósvita landsins frá 1895 má finna á Dalatanga Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir
Klifurfossar.
Klifurfossar. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir
Horft út fjörðinn til suðausturs.
Horft út fjörðinn til suðausturs. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir
Frá Klifurfossum.
Frá Klifurfossum. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Freysteinn Guðmundur Jónsson: Fossar
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert