Þetta eru helstu lúxuslaugar landsins

Þar sem er vatn, sérstaklega heitt vatn, þar er fólk. Þessi frístundaiðja, að slaka á og njóta augnabliksins er segull á innlenda og erlenda ferðamenn. Laugarnar eru uppi á fjöllum, við sjávarsíðu eða manngerðar lúxuslaugar en þeim fjölgar sífellt um landið allt. 

Höfundur tók púlsinn, eða réttar sagt hitastigið í þremur baðstöðum á Norður- og Austurlandi í vikunni ásamt hundruðum ef ekki þúsundum annarra og varð hvergi svikinn.

Fyrst til að vera heimsótt var Geosea við Húsavík. Það er einhver rómantík við að liggja í tæplega fjörutíu stiga heitri laug og horfa á stór hvalaskoðunarskipin sigla fram hjá með ferðamenn út á Skjálfandaflóa. Einstakur baðstaður með magnað útsýni.

Næsta stopp var Jarðböðin á Mývatni. Umhverfið þarf ekki að mæra, slík er náttúrufegurðin allt í kring og ekki voru böðin síðri. Þægileg aðstaða og hitastigið temmilegt.

Vök Baths við Urriðavatn, nokkrum kílómetrum frá Egilsstöðum voru svo heimsótt í tæplega tuttugu stiga hita og voru stórkostleg upplifun. Klefarnir voru þægilegir og stórir. Mismunandi baðstaðir þegar út var komið og svo var hægt að kæla sig í Urriðavatninu ef svo bar undir og þörf var á.

Já, það eru fjölbreyttir möguleikar til afþreyingar þegar farið er um landið og baðstaðir sem þessir er sannarlega heimsóknarinnar virði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert