Ferðalög á tímum heimsfaraldurs krefjast umhugsunar

Það þarf að huga að ýmsu fyrir ferðalög á tímum …
Það þarf að huga að ýmsu fyrir ferðalög á tímum heimsfaraldurs. AFP

Nú eru margir farnir að hugsa sér til hreyfings til útlanda eftir margra mánaða dvöl á landi elds og ísa. Það er þó margt sem þarf að hafa í huga áður en haldið er af stað út í hinn stóra heim.

Heimsfaraldurinn stjórnar enn ferðalögum að miklu leyti en það þarf þó ekki að þýða að þú getir ekki ferðast. Ferðavefurinn tók saman spurningar sem þú ættir að spyrja þig áður en þú bókar ferð út. 

Ertu bólusett/ur?

Flestir lesendur svara þessari spurningu eflaust játandi. Það þarf þó að athuga hvort bólusetningin sé komin með fulla virkni. Þær upplýsingar finnurðu á hlekk sem landlæknir sendi með sms-i eftir bólusetningu. 

Rökin fyrir því að halda frekar út í heim eru sterk. Ekki bara vegna þess að ef þú smitast þá er líklegra að þú veikist minna heldur vegna þess að mörg ríki taka aðeins við bólusettum farþegum. 

Hvaða takmarkanir eru á áfangastaðnum?

Algjört lykilatriði er að skoða hvort þú komist til landsins yfir höfuð. Þú þarft að skoða hvaða gögn þú þarft að vera með, til dæmis bólusetningarvottorð, PCR-próf eða nýlegt vottorð fyrir skimun. Grímuskylda gæti líka verið í gildi á þeim áfangastað sem þú ætlar að heimsækja.

Get ég skoðað það sem ég vil skoða?

Þegar þú skoðar tilvonandi áfangastaði þarftu að athuga hvernig staðan er á helstu ferðamannastöðunum á áfangastaðnum. Sumir áfangastaðir eru með fjöldatakmarkanir eða lokaðir. Það er frekar leiðinlegt að vera kominn lengst út í heim en komast að því að allt er lokað. Afgreiðslutími veitingastaða, skemmtistaða og verslana gæti verið háður takmörkunum. 

Hver er staðan á heimsfaraldrinum á áfangastaðnum?

Til þess að upplifunin verði sem best í fríinu er gott að skoða hvernig smittölur hafa verið í landinu eða á svæðinu sem þú ert að heimsækja. Þótt heimsfaraldurinn sé í lægð hér þýðir það ekki að hann sé ekki í blússandi stuði annars staðar. 

Hvar get ég farið í skimun?

Ef reglurnar á tilvonandi áfangastað eru þannig að þú þarft að fara í skimun á staðnum þarftu að kynna þér hvar þú getir farið í skimun og hvað hún kostar. Mörg hótel eru til dæmis farin að bjóða upp á skimanir.

mbl.is