Ekki bara skíðasvæði

Horft yfir bæina Soldeu og El Tarter. Þá sést Avet-brekkan …
Horft yfir bæina Soldeu og El Tarter. Þá sést Avet-brekkan þar sem skíðað er á heimsbikarmóti. Ljósmynd/Grandvalira

Andorra er smáríki í Pýrenafjöllunum við landamæri Frakklands og Spánar. Þar búa rúmlega 76 þúsund manns á 468 ferkílómetra svæði sem þýðir að landið er minna en svæðið sem Reykjavík og Mosfellsbær leggja undir sig. Höfuðborg landsins heitir Andorra la Vella og er í rúmlega þúsund metra hæð yfir sjávarmáli. Til landsins koma rúmlega átta milljónir ferðamanna á ári hverju, flestir þeirra frá Frakklandi og Spáni.

Andorra er best þekkt fyrir skíðabrekkur sínar og stærstur hluti ferðamanna kemur á veturna. „En fólk kemur þangað líka til að versla og njóta náttúrunnar þar sem 90% af landsvæðinu eru hrein náttúra,“ segir Jordi Haro, fulltrúi ferðamannastjóra Andorra, en góðar aðstæður eru til bæði fjalla- og götuhjólreiða sem og fjallgöngu á sumrin. Haro er hér á landi til að kynna landið og fræðast um leið um Íslendinga ásamt þeim Ester Servat og Jordi Cuenca.

Þar sem landið er svo lítið og auðvelt að fara á milli staða segir Haro ferðamenn geta nýtt sér allt það sem í boði er í Andorra. Fólk skíði til dæmis einn daginn en fari svo í verslunarferð þann næsta en söluskattalög eru hagstæð í Andorra og því hægt að gera góð kaup þar. Þá er einnig að finna framúrskarandi matarhefð í Andorra þar sem áhrifa frá Frakklandi og Spáni gætir.

Finnur ekki fyrir kuldanum

Sólardagar á meðalári í Andorra eru um 300 en því hefur skíðafólk ekki átt að venjast á öðrum vetraráfangastöðum. Þótt aðstæður séu oftast góðar til skíðaiðkunar í brekkum landsins er stundum nauðsynlegt að framleiða snjó og þannig er hægt að tryggja að snjór sé á 68% skíðasvæðanna frá lokum nóvembermánaðar út skíðatímabilið.

„Veðurfarið er mjög gott því það eru áhrif frá Miðjarðarhafinu sem valda því að það er mjög þurrt líkt og hér á Íslandi og því finnur maður ekki eins mikið fyrir kuldanum,“ segir Servat sem starfar fyrir Grandvalira-skíðasvæðið, eitt af þremur skíðasvæðum landsins.

Ferðaskrifstofan Tripical býður upp á ferðir til Andorra frá Íslandi. 

Nánar er fjallað um smáríkið Andorra og hvað það hefur upp á að bjóða fyrir ferðamenn í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »