Guðríður keypti draumahús á Snæfellsnesi

Guðríður Sigurðardóttir, eigandi Attentus, fjárfesti í fallegu heilsárshúsi á Snæfellsnesi …
Guðríður Sigurðardóttir, eigandi Attentus, fjárfesti í fallegu heilsárshúsi á Snæfellsnesi fyrir þremur árum.

Guðríður Sigurðardóttir, eigandi Attentus, fjárfesti í fallegu heilsárshúsi á Snæfellsnesi fyrir þremur árum. Þangað fer hún reglulega til að slaka á.

Hún er ein af þeim sem nýtur sín í miðborginni þar sem hún er í skemmtilegri vinnu og hefur í nógu að snúast. Hún hefur ekki farið í sumarleyfi enda nóg að gera í mannauðsmálum þessa dagana. Hún er einnig að sinna sjálfboðastarfi hjá Menntunarsjóði Mæðrastyrksnefndar en í júní er gert upp fjáröflunarátakið sem fór fram í maí og síðan er farið yfir styrkumsóknir.

„Húsið er heilsárshús á dásamlegum stað í Stykkishólmi. Það var langþráður draumur sem rættist þegar við keyptum það fyrir þremur árum. Frændi minn átti húsið áður og okkur þótti gaman að halda því í fjölskyldunni enda er húsið á einstökum stað að okkar mati.“

Það er góð hugmynd að skála úti í garði á …
Það er góð hugmynd að skála úti í garði á Snæfellsnesinu.

Eru ennþá að vinna að breytingum á húsinu

Ertu búin að vera að gera það upp?

„Það þurfti í raun ekki að gera það upp. Húsið var í góðu ástandi í raun en við ákváðum að breyta stiga sem var helst til brattur og þá fór einhver snjóbolti af stað og við erum enn að vinna að breytingum.“

Er ákveðinn stíll í húsinu?

„Húsið er byggt árið 1947 minnir mig og án þess að vera að gera það að minnisvarða þess tíma þá erum við að reyna að halda í ákveðinn anda frá þeim tíma.“

Hvað með aðstöðuna í kringum húsið?

„Staðsetning húsins er sérlega falleg. Húsið stendur yst á tanga og er með útsýni út á sjó á þrjá vegu og hægt að ganga beint ofan í klettafjöru úr garðinum. Hver getur beðið um meira? Mögulega kemur einhvern tíma heitur pottur eða eitthvað slíkt.“

Hvaða staðir heilla þig á þessu svæði sem sumarhúsið er á?

„Það er allt sem heillar. Snæfellsnesið er einstakt svæði og Stykkishólmur og nærumhverfi í sérlegu uppáhaldi hjá mér. Eyjarnar, hið undurfagra Drápuhlíðarfjall, Berserkjahraun og svo er bærinn sjálfur svo einstaklega myndrænn og fallegur. Mér finnst verulegur kostur að vera með sundlaug, verslanir og söfn, svo ég tali nú ekki um dásamlega veitingastaði, í göngufjarlægð. Svo eru Búðir og gönguleiðin milli Arnarstapa og Hellna algjör gersemi. Ég verð alltaf jafn heilluð þegar ég fer þangað.

Sundlaugin í Stykkishólmi er náttúrlega frábær en svo er líka gaman að gera sér ferð á Lýsuhól sem dæmi eftir góða göngu.

Í fyrrasumar gekk ég með góðum vinum upp Drápuhlíðarfjall, sem er passlega erfið ganga sem býður upp á dásamlegt útsýni en svo er fjallið þannig gert að þó það sé ekki útsýni þá er hægt að njóta þessa að horfa á síbreytilega liti fjallsins sjálfs. Í því er bæði lípartít og basalt en einnig surtarbrandsleifar og steinrunnir trjábolir.“

Fjölskyldan hefur verið að gera húsið upp að undanförnu.
Fjölskyldan hefur verið að gera húsið upp að undanförnu.

Magnað hvað er flott matarmenning á staðnum

Áttu minningar af þér sem barni frá staðnum?

„Ég á góða minningu að fara með afa að tína fjallagrös og ber í Berserkjahrauni og hún verður alltaf ljóslifandi þegar ég fer þar um og yljar.“

Hvað með hótel og gististaði á svæðinu?

„Eina hótelið sem ég hef gist á svæðinu er Hótel Búðir og ég get klárlega mælt með því en ég hef hinsvegar verið mun duglegri að prófa veitingastaðina á Snæfellsnesi. Það er alveg magnað hvað það er flott matarmenning á svæðinu og allir bæir bjóða upp á að minnsta kosti einn góðan veitingastað og því tilvalið að fara í „gourmet“-ferð um nesið.“

Af hverju valdirðu að kaupa sumarhús á þessum stað?

„Ég er alin upp í Stykkishólmi og mikill „Hólmari“ í mér. Ég hef verið að gista hjá ættingjum þegar ég hef komið vestur í styttri ferðir og okkur langaði að geta dvalið þar í lengri tíma.

Þetta var lengi vel eina landsvæðið sem ég þekkti og nafli alheimsins í mínum huga. En sem barn var fjaran og höfðinn á bak við götuna sem ég bjó í í Stykkishólmi mitt helsta leiksvæði. Ferðalögin tóku svo við síðar.“

Hvað gerir unga fólkið og fjölskyldan á staðnum?

„Eins og stendur erum við mikið að vinna í húsinu og eldri börnin taka þátt í því en þess á milli eru göngu- og sundferðir vinsælastar.

Yngsta barnið er að verða 11 ára og síðasta sumar vorum við þarna tvö ein ásamt hundinum í þrjár vikur og bíllaus.

Hann naut rólegheitanna og frelsisins. Ég fór í göngutúra með hundinn, í sund, hjólaði um bæinn og ærslabelgurinn er alltaf mikið aðdráttarafl. En ég hugsa að ef þú spyrðir hann þá væri Skúrinn aðalmálið. Hann er á því að þetta sé besti veitingastaður í heimi og hann heimsótti vini sína í Skúrnum daglega og endaði með því að vera fataður upp í starfsmannagalla Skúrsins og hann bíður bara eftir atvinnutilboði frá Svenna og Adda í Skúrnum.“

Hundurinn Váli er mikið fyrir náttúruna.
Hundurinn Váli er mikið fyrir náttúruna.

Eldar þú öðruvísi mat í sveitinni? „Nei, en ég verð ósjálfrátt aðeins húslegri þegar ég er þar lengur en í nokkra daga og ég næ að skipta um hraða. Síðasta sumar bakaði ég mikið súrdeigsbrauð og svo fann ég mikið af rabarbara í garðinum og sultaði og gerði meira að segja rabarbaragraut sem ég hef varla borðað síðan ég var krakki. Svo hef ég tilkynnt frændsystkinum mínum að ég ætli að fara að æfa mig í að baka sandkökuna sem amma í Stykkishólmi bakaði alltaf og vonast til að það heppnist það vel að hún verði „kaka hússins“ en ég treysti á góða leiðsögn frá móðursystur minni sem býr í Hólminum.“

Hvað með að endurnæra orkuna í nálægð við náttúruna?

„Það er engin spurning að maður endurnærist í nánd við náttúruna, sjávarloftið og kraftinn sem fylgir sjónum. Hann gefur mér svakalega mikið. Ég stend mig oft að því að anda dýpra og meira þegar ég er við sjóinn.“

Guðríður bakar og eldar aðeins öðruvísi mat í sveitinni.
Guðríður bakar og eldar aðeins öðruvísi mat í sveitinni.
Útsýnið til suðurs.
Útsýnið til suðurs.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »