Google Maps leiði fólk í ógöngur

Ben Nevis að sumarlagi en fjallið er 1344 metrar að …
Ben Nevis að sumarlagi en fjallið er 1344 metrar að hæð og er hæsta fjall Bretlands. Wikipedia/Thincat

Göngufólk sem stefnir á tind Ben Nevis, hæsta tind Bretlands, lendir æ oftar í ógöngum á leið á fjallið. Nathan Berrie hjá John Muir-stofnuninni segir ástæðuna þá að Google Maps leggi til að fólk keyri að efra bílastæðinu á fjallinu.

Leiðin frá efra bílastaæðinu að tindi fjallsins er hins vegar torfær og erfið og aðeins fyrir þá sem hafa mikla reynslu af fjallgöngum. 

Tindur Ben Nevis stendur í 1.345 metra hæð yfir sjávarmáli. „Vandamálið er að Google Maps segir fólki að fara að Upper Falls-bílastæðinu, líklegast af því að það er nær tindinum en önnur bílastæði. En þetta er ekki rétta leiðin og við komum oft að hópum fólks sem hefur ekki mikla reynslu af fjallgöngum á leið að Steall Falls eða upp syðri leiðina að Ben Nevis, og það heldur að það sé leiðin að tindinum,“ sagði Berrie. 

Skjáskot

Hann segir leiðina geta verið stórhættulega og heimamenn hafa áhyggjur af því að banaslys verði fyrr en síðar ef Google Maps heldur áfram að beina fólki þessa leið. 

„Fyrir þá sem ekki hafa reynsluna virðist rökrétt að fara á Google Maps og finna upplýsingar um hvernig þú kemst á tindinn,“ segir Berri. Hann segir leiðina sem Google Maps stingi upp á erfiða fyrir reynda göngugarpa. „Leiðin er brött, stórgrýtt og slóðin hverfur á tímabili, jafnvel þegar það er gott skyggni. Þegar þú bætir við skýjum og rigningu, þá getur orðið banaslys á þessari leið,“ segir Berrie. 

John Muir-stofnunin vill veita Google Maps ráðgjöf um hvernig megi bæta leiðakerfið í forritinu og passa upp á að jafn hættulegar leiðir séu ekki sýndar nema með viðvörunum. Engin svör hafa borist frá Google Maps. CNN Travel hefur haft samband við Google Maps og sagði talskona fyrirtækisins að verið væri að skoða tilkynningar um leiðina.

CNN Travel

mbl.is