Slegist um hótelherbergi í Hamptons

Hamptons er vinsæll sumardvalarstaður New York-búa.
Hamptons er vinsæll sumardvalarstaður New York-búa. Ljósmynd/Wikipedia.org

Sumardvalarstaður New York-búa og fleiri Bandaríkjamanna er þéttsetinn um þessar mundir líkt og önnur sumur. Eftirspurnin eftir hótelherbergjum hefur rokið upp og er allt uppbókað. Heimildir eru fyrir því að fólk bjóði háar upphæðir í herbergi til að tryggja sér þau. 

Michael Pitsinos, eigandi Naia Capri Hotels í Southampton, sagði Page Six að þetta væri eins og í villta vestrinu. Hann segir fólk bjóða tugi þúsunda bandaríkjadala fyrir eitt herbergi. „Það er svo gott sem ómögulegt að fá herbergi yfir helgi, og alls ekki með stuttum fyrirvara,“ sagði Pitsinos.

Page Six hefur heimildir fyrir því að rappararnir Young Thug og Travis Scott, ásamt um 15 vinum, hafi nýlega skemmt sér á hóteli í Hamptons og í lok kvölds keypt öll herbergi á hótelinu, 188 þúsund krónur hvert herbergi. 

„Þeir eiga pening og þeim er sama. Þeir vilja vakna við sundlaugina og peningar eru engin fyrirstaða. Annað fólk reyndi að yfirbjóða þá þar sem öll önnur hótel voru full,“ sagði ónafngreindur heimildarmaður Page Six. 

Annar rekstraraðili í Hamptons, Zach Erdem, sagðist aldrei hafa upplifað annað eins. „Fólk bókaði herbergi á 75-85 þúsund krónur fyrir mörgum mánuðum og núna er fólk að hringja og reyna að bjóða í herbergin, allt að tvöfalt hærri upphæð. Ég setti herbergi í sölu á 150 þúsund og það seldist á einni mínútu,“ sagði Erdem og sagðist óska þess að hann ætti fleiri hótel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert