Giftu sig úti á sjó við Klettshelli

Klaudia Beata Wanecka og Marcin Wanecki vildu gifta sig á …
Klaudia Beata Wanecka og Marcin Wanecki vildu gifta sig á aðeins annan hátt en venjulega. mbl.is/Sólveig Adolfsdóttir

Klaudia Beata Wanecka fjölmenningarfulltrúi hjá Vestmannaeyjabæ og Marcin Wanecki meiraprófsbílstjóri hjá Samskipum í eyjum vildu gifta sig á aðeins annan hátt en venjulega.

„Brúðkaupið okkar var þann 13. apríl. Við erum ekki trúuð og vorum að leita að einhverju sem við gætum gert svo athöfnin yrði falleg. Við höfum verið að velta fyrir okkur alls konar stöðum hér í Eyjum en svo datt mér í hug að það hafa áður fyrr verið brúðkaup á bátum hjá Ribsafari og Boat Tours og ég sagði Marcin frá þeirri hugmynd að gera þetta í Klettshelli hér í Eyjum á báti.“

Brúðkaupið var þann 13. apríl á þessu ári á bátum …
Brúðkaupið var þann 13. apríl á þessu ári á bátum frá Ribsafari og Boat Tours. mbl.is/Sólveig Adolfsdóttir

Eftir að þau höfðu hugleitt þetta ræddu þau við vinkonu sína hjá Ribsafari.

„Yndislega Helga var meira en lítið til í þetta. Við skreyttum bátinn og vorum með okkar eigin tónlist. Sýslumaðurinn gaf okkur saman í Klettshelli með okkar nánustu. Vegna kórónuveirunnar voru einungis okkar nánustu fjölskyldumeðlimir með.

Við vorum 15 um borð. Það komu nokkrir vinir heim um kvöldið þar sem við vorum með mat og drykki og þjóðhátíðartjald í garðinum.“

Dagurinn var einstaklega fallegur í Eyjum.
Dagurinn var einstaklega fallegur í Eyjum. mbl.is/Sólveig Adolfsdóttir

Samfélagið náið og stutt í allt

Marcin hefur búið í Vestmannaeyjum frá því árið 2008 en Klaudia flutti þangað árið 2013.

„Við elskum að búa í Eyjum þrátt fyrir samgönguerfiðleika á veturna. Það er svo fallegt hér og yndislegt. Þetta er náið samfélag og stutt í allt.“

Hvernig er að starfa sem leiðsögumaður á þessu svæði?

„Það er mjög gaman. Maður fær alls konar fólk í ferðirnar og hver og ein ferð er sérstök. Fólkið er með mismunandi væntingar en þetta er svo mikil upplifun að fara í svona ferðir og skoða eyjar, hella og náttúruna og hlusta á skemmtilega tónlist að fólkið kemur alltaf ánægt úr þeim.“

Hvað mælirðu með að fólk geri þegar það heimsækir Vestmannaeyjar?

„Kíkja í Ribsafari er nauðsynlegt! Fara upp á Heimaklett, Eldfell og Dalfjall fyrir þá sem eru ekki lofthræddir. Kíkja í Eldheima, Sagnheima og Sea Life. Kajakferðir eru rosalega vinælar og fjórhjólaferðir á nýja hrauninu nokkuð sem má ekki missa af. Allir geta fundið eitthvað fyrir sig hér.“

Brúðhjón með sínu nánasta fólki.
Brúðhjón með sínu nánasta fólki. mbl.is/Sólveig Adolfsdóttir

Sturlað gaman að fara í Ribsafari

Hvar er best að borða úti?

„Við erum með svo marga flotta veitingastaði hér í Eyjum að erfitt er að velja en fyrir okkar smekk klikkar Einsi kaldi aldrei, Gott og Pítsugerðin eru líka í uppáhaldi hjá okkur, og hægt er að mæla með salatbarnum og kjúklingasalatinu í hádeginu á Tanganum.“

Hvernig er upplifunin að fara í Ribsafari?

„Þetta er sturlað gaman! Það er tónlist, náttúran og adrenalínið. Maður er í svo miklu samneyti við náttúruna að vera á sjó og skoða alla eyjuna og eyjarnar í kring frá allt öðru sjónarhorni. Svo eru fuglar og ungarnir í hellunum og í fjallshlíðum sem maður getur fylgst með. Svo færðu skemmtilega leiðsögn frá starfsmönnum Ribsafari, og þótt ég segi sjálf frá þá erum við öll rosalega skemmtileg og mjög gott teymi.“

Eruð þið ánægð að búa á Íslandi?

„Já Ísland er okkar heimaland. Við erum bæði með íslenskan ríkisborgararétt og höfum búið hér meiri hluta ævi okkar. Við eigum hús hér og þekkjum lítið til í Póllandi þar sem við vorum bæði um 11 ára gömul þegar við fluttum. En okkur finnst gott að búa á Íslandi og viljum ekki fara héðan.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »