Útivistin kallaði á Ólöfu

Ólöf Sesselja Ingimundardóttir elskar að eltast við fjallstinda og ævintýri. …
Ólöf Sesselja Ingimundardóttir elskar að eltast við fjallstinda og ævintýri. Hér er hún á miðjum Skaftafellsjökli.

Ólöf Sesselja Ingimundardóttir, ævintýraleiðsögumaður frá Keili/Thompson Rivers University, er sérhæfð í jöklaleiðsögn. Það var enginn útivistargarpur í hennar nánasta umhverfi en þegar hún fór í sína fyrstu flúðasiglingu varð ekki aftur snúið. 

„Ég hef alltaf unað mér í íþróttum og útiveru en mínar uppáhaldsminningar eru af útilegum og ævintýrum úr sveitinni bæði undir Eyjafjöllum, Hvolhreppnum og efst í Hvítársíðu, en þaðan er ég ættuð. Á mínum uppvaxtarárum var enginn útivistargarpur í kringum mig til þess að smita mig af dellunni en samt sem áður kallaði útivistin á mig. Það var ekki fyrr en eftir mína fyrstu flúðasiglingu í Hvítá sem ég varð ákveðin í að koma mér í þennan heim. Ég minnist þess þegar ég spurði einn leiðsögumannin hvernig það væri að vinna við svona starf og svarið sem ég fékk var spurningin: „Hvað finnst þér?““ segir Ólöf þegar hún er spurð hvort hún hafi alltaf stundað útivist.

„Eftir menntaskólann sá ég auglýst nám í Keili sem heillaði mig alveg upp úr skónum en það var ævintýraleiðsögunám frá Thompson Rivers University, aðlagað íslenskum aðstæðum. Námið var virkilega krefjandi en án efa skemmtilegasta nám sem ég hef farið í. Þar lærði ég allt sem tengist leiðsögn og kynntist yndislegu fólki og nýjum útivistaríþróttum eins og flúðasiglingum, kajakróðri og ísklifri svo eitthvað sé nefnt! Þá fór boltinn að rúlla og ég sótti um starf hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum (Arcanum Mountainguides) þar sem ég sérhæfði mig enn frekar í jöklaleiðsögn.“

Ólöf í ævintýri á Falljökli.
Ólöf í ævintýri á Falljökli.
Ólöf fer meðal annars með fólk á kajak. Hér má …
Ólöf fer meðal annars með fólk á kajak. Hér má sjá kajaka á Sólheimajökli.


Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi?

„Þetta er erfið spurning! Ísland er svo fjölbreytt og hver krókur og kimi landsins býður upp á svo ólíka upplifun. Ætli uppáhaldsstaðurinn minn á landinu þessa stundina sé þá ekki Öræfin, þar sem þau hafa svo margt upp á að bjóða. Þar er fjöldinn allur af tindum sem hægt er að sigra, jöklar allt um kring og klettaklifur hvert sem litið er, svo er náttúrufegurðin ein sú mesta.“

Þessi mynd er tekin á Skaftafellsjökli.
Þessi mynd er tekin á Skaftafellsjökli.


Hver er eftirminnilegasta ferð sem þú hefur farið í á Íslandi?

„Ég held að eftirminnilegasta ferð sem ég hef farið í á Íslandi sé jafnframt mitt fyrsta bakpokaferðalag um landið. Þá var ég nýbyrjuð í leiðsögunáminu og við fórum norður í nokkurra daga göngu um Laxárdalsfjöll. Þessi ferð var ekki ein af þessum draumaferðum en eftirminnileg er hún. Tindarnir sem við ætluðum að toppa fóru bókstaflega í veður og vind. Hausthraglandi tók á móti okkur og bauð upp á eins konar él-rigningu og svo hressilegan vind að við urðum að ganga í dölunum á milli fjalla. Þar var ekkert í boði nema arka í mýri svo allir urðu vel votir í fæturna. Svo til að toppa þetta allt saman, þá frysti á næturnar svo morgunninn bauð upp á gaddfreðna skó og grýlukerti á tjöldum. Seinasta daginn skreið sólin úr fylgsni sínu og minnti á það hvernig erfiðu dagarnir kenna okkur að meta þá ljúfu.“

Hvers konar ferðir ferð þú í sem leiðsögumaður? 

„Ég hef eytt mestum tíma í kringum jöklana. Leitt jöklagöngur, jöklaklifur og kajakróður á jökullónum. Svo hef ég einnig tekið nokkrar hellaferðir, göngur að jarðböðum og dagsferðir um Suðurlandið. Að mínu mati er engin ein ferð skemmtilegust, heldur fer það allt eftir aðstæðum. Hins vegar bjóða lengri ferðir upp á fleiri tækifæri og þegar einhvers konar þjálfun á sér stað, til dæmis í kajakróðri eða jökulklifri, þá er það virkilega gefandi að sjá fólk bæta sig og læra eitthvað nýtt.“

Ólöf horfir yfir Skaftafellfjöll á toppi Blátinds.
Ólöf horfir yfir Skaftafellfjöll á toppi Blátinds.


Ertu farin að þrá að ferðast til útlanda eða er Ísland alveg nóg fyrir þig? 

„Já og já. Mér þykir ótrúlega gaman að ferðast, skoða og upplifa þá ólíku staði sem heimurinn hefur upp á að bjóða. Hins vegar er ómögulegt að láta sér leiðast hér á landi, þar sem Ísland hefur svo ótrúlega margt upp á að bjóða. Á hverju einasta ári uppgötva ég nýja og spennandi staði á Íslandi. Svo er hægt að upplifa sömu gömlu staðina á ótal vegu, allt eftir því hvernig veðrið er, hvaða félagsskap maður er í og hvernig umhverfið breytir landslaginu líkt og jöklarnir sem eru sífellt á hreyfingu.“

Hvað ætlar þú að gera í sumar?

„Í raun hef ég ekkert sérstakt plan í sumar heldur ætla ég bara að njóta og nýta hvert tækifæri sem gefst í að gera eitthvað skemmtilegt. Ég hef ýmislegt uppi í erminni; líklega fer ég á Hnappavelli að klifra, heimsóknir upp á hálendið og mögulega kíkir maður eitthvað út fyrir landsteinana.“

Ólöf bregður á leik á Sólheimajökli.
Ólöf bregður á leik á Sólheimajökli.


Hvaða staði á Íslandi áttu enn eftir að koma á? 

„Eins og ég minntist á hér áðan bætast nýir staðir á listann reglulega og hálfvandræðalegt að skoða „staði sem ég vil heimsækja“ á Google Maps. Ég hef haft Hornstrandir og ýmsa jökla á bak við eyrað upp á síðkastið og mun ná þeim markmiðum þegar tækifæri gefst. Ísland er stórt og ég hef allt lífið til að skoða það, markmiðið er að eltast við fjallstinda og ævintýr þar til ég er hundrað ára!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert