Vön að marinerast í New York

Brynja Pétursdóttir elskar New York.
Brynja Pétursdóttir elskar New York.

Brynja Pétursdóttir, eigandi Dans Brynju Péturs, byrjaði að fara til New York til að viða að sér þekkingu í götudönsum árið 2007. Borgin sem aldrei sefur er án efa uppáhaldsborg Brynju sem hefur ekki farið til borgarinnar lengi vegna heimsfaraldurs. Á meðan kennir hún krökkum sem fullorðnum dans sem á rætur að rekja til borgarinnar.  

„Ég byrjaði að fara til New York árið 2007 til að dansa og læra meira í street-dansstílunum. Þar komst ég í tengingu við dansara sem eru frumkvöðlar í Hiphop, House, Waacking og fleiri stílum sem hafa mótast og þróast í New York síðan á 8. áratugnum. Síðan þá hef ég farið árlega og upp á síðkastið verið í fjóra til sex mánuði á ári að marinerast í dansmenningunni og lífinu í uppáhaldsborginni,“ segir Brynja um tengingu sína við borgina. 

Brynja kom síðast heim frá New York í janúar 2020, rétt áður en heimsfaraldurinn skall á. Þá hafði hún verið í rúman mánuð í borginni. „Ég bíð nú róleg eftir að Íslendingar megi aftur fljúga yfir,“ segir Brynja. 

Hvaða hverfi er í uppáhaldi hjá þér?

„Ég er mjög heimakær í Bedstuy í Brooklyn.“

Áttu þér upp­á­haldsveit­ingastað í New York?

„Alveg röðina af þeim. Uppáhalds er lítill jamaískur staður, Taylor Made á Classon ave í Brooklyn.“

Brynja er dugleg að dvelja í New York og dansa.
Brynja er dugleg að dvelja í New York og dansa.

Hvernig er skemmtanalífið í New York?

„Það er frábært ef þú veist hvert þú ert að fara! Ég hangi mest á stöðum sem tengjast danssenunni, það eru sérstök Dancehall-, House-, Hiphop-, Funk- og Vogue-kvöld í hverri viku þar sem dansað er langt fram á nótt. New York er mikill suðupottur menningar og maður kemst í heilan heim af „eclectic“ tónlistarveislum þar sem soul, funk, hiphop, house, afrobeat, dancehall, RnB, disco, breakbeats og alls konar „treats“ eru spiluð í góðu flæði.“

Hvað er ómissandi að sjá og gera?

„Ég mæli alltaf með að elta menningu, hvað sem það er sem þú fílar. Það er eiginlega bókað að þú finnir þitt „niche“ í New York. Gúglaðu og farðu ofan í allar kanínuholur sem birtast þér á alheimsnetinu og finndu fólkið þitt.“

Brooklyn er hverfið hennar Brynju.
Brooklyn er hverfið hennar Brynju.

Hvernig er draumadagurinn í New York?

„Sofa út, fara í sólbað upp á þak. Svo eru tveir möguleikar líklegastir: A) Hoppa út á Brooklyn Blend í salat og smoothie, stefnan tekin í dansstúdíó þar sem tveir eða þrír góðir kennarar kenna samdægurs. Eftir það er stuttur dauði og svo farið á eitt af danskvöldunum. Eða plan B) Ég er dauð eftir nokkra pakkaða daga í röð, þá er það ramen á yndislega staðnum mínum sem ég man aldrei hvað heitir. Spjall við afgreiðslufólkið og hangs með vinum fram eftir kvöldi, líklegast í „park jam“ með frábærum DJ'um og góðum straumum.“

Eru einhverjar túristagildrur sem ber að varast?

„Þær eru alveg endalausar, og margar örugglega skemmtilegar. Ég mæli með að anda að sér borginni og leita í eins fjölbreytta menningarheima og þig lystir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert