„Þórsmörk er algjör draumur“

Kolbrún Ýr veit fátt skemmtilegra en að ferðast um landið.
Kolbrún Ýr veit fátt skemmtilegra en að ferðast um landið. mbl.is/Kolbrún Ýr

Kolbrún Ýr Sturludóttir er sjálflærð í ljósmyndun. Síðustu ár hefur verið nóg að gera hjá henni að vinna fyrir fyrirtæki og einstaklinga á Íslandi og um allan heim.

„Ég hef mest unnið í ferðaljósmyndun eða markaðsetningu og fengið tækifæri til að sjá og upplifa margt sem Ísland hefur upp á bjóða. Áhugi minn og hvað ég er að vinna við hefur alltaf verið að breytast, en ljósmyndun og ferðalögin hafa alltaf haldist í gegnum árin. Síðan ég var ung hef ég alltaf ferðast í kringum Ísland og líður best þegar ég er í tengingu við náttúruna eða á einhverju ferðalagi.“

Ljósmyndir hennar úr náttúrunni eru ævintýri líkast.
Ljósmyndir hennar úr náttúrunni eru ævintýri líkast. mbl.is/Kolbrún Ýr

Hvað ertu að fást við þessa dagana?

„Mér finnst alltaf gaman að fara út fyrir þægindarammann og prufa eitthvað alveg nýtt. Þess vegna sótti ég um nám í ljósmyndun í London þar sem allt er gjörólíkt því sem ég er vön hér á Íslandi. Ég hef búið í London á liðnu ári og var að klára mitt fyrsta ár í ljósmyndun í UAL [e. University of the Arts London]. Sem ljósmyndari er það allt annar heimur að mynda á Íslandi og í London og því hef hefur þekking mín orðið mun meiri með því að flytja utan.

Þetta er búið að vera mjög lærdómsfullt ár. Ekki einvörðungu í námi heldur einnig í almenna lífinu. Að koma sér fyrir á stað sem maður þekkir ekki vel og að vera í aðstæðunum sem hafa verið að undanförnu um allan heim tekur á en ég hef alltaf haft gaman af smá áskorunum.“

Þegar hestar og kona teygja úr sér í upphafi dags.
Þegar hestar og kona teygja úr sér í upphafi dags. mbl.is/Kolbrún Ýr

Alltaf gaman að sjá nýja staði

Hvenær heimsóttir þú Suðurlandið síðast?

„Ég hef ekki ferðast almennilega um Ísland síðan í fyrrasumar. Ég er núna mætt til Íslands og verð í allt sumar hér. Ég get ekki beðið eftir að byrja að ferðast með vinum og fjölskyldu og fara aftur á mína uppáhaldsstaði. Í næstu viku er ég að fara hringinn í kringum landið og er mjög spennt fyrir því. Svo verð ég nú að sjá þetta umtalaða eldgos!“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera á ferðalögum?

„Mér finnst alltaf gaman að sjá nýja staði, sem ég hef aldrei séð áður. Enn þá betra ef ég finn þá alveg óvart á leiðinni á annan stað.

En á mínum ferðalögum í gegnum árin hefur það alltaf verið fólkið sem ég ferðast með sem gerir bestu minningarnar. Það er líka ótrúlega gaman að ferðast með fólki sem er að koma til Íslands í fyrsta skipti og sjá viðbrögðin þess þegar maður fer á ferðalag um landið. Það lætur mann hugsa hvað maður er heppinn að hafa átt heima á Íslandi öll þessi ár með alla þessa náttúru í kringum sig.“

Náttúran á Suðurlandi er einstök.
Náttúran á Suðurlandi er einstök. mbl.is/Kolbrún Ýr

Jökulsárlón í miklu uppáhaldi

Hvaða þrír staðir eru í uppáhaldi hjá þér á Suðurlandinu?

„Þórsmörk er algjör draumur að sjá og gista í, með fallegum gönguleiðum allt í kring.

Jökulsárlón hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi síðan ég var yngri. Í fyrra var ég svo heppin að sjá hreindýr á öllu bílastæðinu við lónið þar sem það voru engir ferðamenn á landinu vegna kórónuveirunnar og var það alveg ný upplifun út af fyrir sig. Ég myndi svo segja að Háifoss væri þriðji uppáhaldsstaðurinn á listanum.“

Hvað gerir þú aldrei á ferðalögum?

„Áður fyrr var ég oft í keppni við tímann að sjá sem mest á sem stystum tíma. Sérstaklega ef ég var í verkefni. Í dag er ég ekki mikið fyrir stress og kýs ég því frekar að fara á færri staði og njóta en á marga staði í flýti. Ég vil heldur ekki plana of mikið þegar ég er að ferðast því ég vil ekki festa mig við eitthvert plan ef ég rekst á stað eða fólk sem tekur mig eitthvað allt annað.“

Áttu þér uppáhaldsveitingastað á Suðurlandinu?

„Ef ég keyri fram hjá Friðheimum, þá verð ég að fara inn í súpu þótt ég sé ekkert svöng.“

Kolbrún Ýr og fjölskylda á Glass Lodge Iceland á Hellu.
Kolbrún Ýr og fjölskylda á Glass Lodge Iceland á Hellu. mbl.is/Kolbrún Ýr

Lopapeysan í uppáhaldi

Hvar gistir þú vanalega þegar þú ert að ferðast?

„Það fer allt eftir hverjum ég er að ferðast með og hvar ég er á landinu. Ég hef oft ætlað að tjalda þegar ég er að ferðast en veðrið hefur verið svo hrikalegt að við höfum þurft að bóka gistingu. Þetta hefur einnig oft verið öfugt, þá hef ég verið með bókaða gistingu en veðrið verið svo gott og við fundið æðislegan stað og þá verið svo heppin að vera með tjald með í bílnum.“

Hreindýr á hraðri ferð um Suðurland.
Hreindýr á hraðri ferð um Suðurland. mbl.is/Kolbrún Ýr

Hvernig eru uppáhaldsferðafötin?

„Lopapeysa er alltaf í uppáhaldi hjá mér. Það skiptir mig engu máli hvaða skóm eða buxum ég er í. Það verður bara alltaf að vera lopapeysa. Svo er alltaf gott að hafa föt með til skiptanna ef maður rekst á heitar laugar á leiðinni eða kaldar gjár að hoppa í.“

Náttúran skiptir litum og verður stundum blá.
Náttúran skiptir litum og verður stundum blá. mbl.is/Kolbrún Ýr
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert