Íslenskir ferðamenn kurteisir og þakklátir

Kristín Aðalheiður Símonardóttir, Heiða, og Bjarni Jónsson reka kaffihúsið Gísla, …
Kristín Aðalheiður Símonardóttir, Heiða, og Bjarni Jónsson reka kaffihúsið Gísla, Eirík og Helga á Dalvík. mbl.is/Ásdís

Kristín Aðalheiður Símonardóttir á kaffihúsinu Gísla, Eiríki og Helga á Dalvík segir íslenska ferðamenn kurteisa, þakkláta og sýna biðlund. Kristín, sem alla jafna er kölluð Heiða, segir allt starfsfólk sitt hafa fylgst vel með því í byrjun sumars eftir neikvæða umræðu um íslenska ferðamenn og komist að því að þar fóru ekki hljóð og mynd saman. 

„Við tölum svo oft um það þegar við komum inn með óhreint leirtau hversu kurteisir gestirnir eru. Og það gefur starfsfólkinu svo mikið að fá fallegt hrós, það eykur sjálfstraustið og jákvæðnina,“ segir Heiða í samtali við mbl.is. 

„Erlendir ferðamenn eru almennt mjög kurteisir en það stakk mig svo í vor þegar það var þessi umræða um íslensku ferðamennina. Við erum öll sammála hér um að það er ekki okkar upplifun. Það verður líka að tala um það sem gott er,“ segir Heiða.

Sumarið er búið að vera gott á Dalvík en veðrið, eins og fjallað hefur verið um, lék sannarlega við Norðurlandið í júlí. „Þetta hefur verið algjörlega frábært sumar hjá okkur, og það er ekki búið enn,“ segir Heiða. Margar helgar hafa verið fullbókaðar hjá þeim á gistiheimilinu og góð aðsókn hefur verið á tjaldsvæðið. Á kaffihúsinu er oft röð út úr dyrum en Heiða segir fólk bíða rólegt og sýna því skilning.

Hún segir mikið hafa verið að gera um verslunarmannahelgina, þó aðallega yfir daginn og kvöldin verið róleg.

Ef ekki væri fyrir heimsfaraldur kórónuveiru væri undirbúningur fyrir Fiskidaginn mikla á Dalvík í fullum gangi. Heiða segist finna að andrúmsloftið sé afslappaðra vikuna fyrir hátíðina þetta árið, enda engin stór hátíð til að skipuleggja. Dalvíkingar deyja þó margir hverjir ekki ráðalausir. „Það eru heimamenn hér sem ætla að halda sína hátíð í görðunum heima, í sinni litlu búbblu, og elda sína súpu og hafa gaman, á meðan við bíðum eftir stóra fiskideginum á næsta ári,“ segir Heiða.

Um verslunarmannahelgina var tjaldsvæðið á Dalvík fullt og býst Gísli Rúnar Gylfason íþrótta- og æskulýðsfulltrúi við því að það muni aftur fyllast um helgina vegna samkomutakmarkana.

mbl.is