Er þetta ekki fallegasti garður veraldar?

Þau Sandra og Marc Plesner Weinert eru eigendur Guldsmeden-hótelkeðjunnar. Þau hafa opnað falleg „boutique“-hótel víða um heim, meðal annars í Kaupmannahöfn, Osló, Reykjavík, Berlín, Menton og á Balí. Hótelið sem þau eiga á Íslandi ber nafnið Eyja og er til húsa í Brautarholti 10.

Hótelkeðjan þykir aðlaðandi og hefur fiskalaugin á Manon Les Suites-hótelinu í Kaupmannahöfn vakið sérstaka athygli þar sem hún stendur í yfirbyggðum garði sem minnir á frumskóg. Laugin er heit og þar má finna bar og fá slopp og fleira sem eykur á ánægjuna. 

Veðrið í Kaupmannahöfn getur verið alls konar og því þykir yfirbyggð sundlaug í fallegu umhverfi eftirsóknarverður kostur. Sundlaugin er opin öllum gestum hótelsins yfir daginn til tíu á kvöldin. „Gestir af götunni“ geta keypt sig inn á sundlaugarsvæðið fyrir hóflega upphæð.

Fiskar og fallegar plöntur hanga í loftinu fyrir ofan sundlaugina og myndast einstakur friður og kyrrð með skreytingunum. Þegar kvölda tekur breytast fiskarnir í ljós, sem gerir stemninguna þannig að erfitt er að lýsa henni með orðum. 

Börn sem fullorðnir virðast elska laugina og halda sumir því fram að hún sé í einum fallegasta garði veraldar.

Hótelherbergin eru látlaus og þægileg og er mælt með þessu hóteli í Kaupmannahöfn fyrir ferðamenn sem vilja gista á hóteli í eigu fjölskyldu sem setur umhverfismál í öndvegi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert