Vogue fjallar um Sky Lagoon

Sky Lagoon er til umfjöllunar í bandaríska tískutímaritinu Vogue.
Sky Lagoon er til umfjöllunar í bandaríska tískutímaritinu Vogue. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Baðlónið Sky Lagoon á Kársnesi er til umfjöllunar á vef bandaríska tískutímaritsins Vogue um þessar mundir. Fleira íslenskt er til umfjöllunar hjá Vogue en Mosha Lundström Halbert, sem er af íslenskum ættum, fléttar inn umfjöllun um hönnuðinn Hildi Yeoman, ljósmyndarann Sögu Sig og íslensku koffíndrykkina Collab. 

Umfjöllunin ber heitið: „Í Sky Lagoon, tilkomumesta og nýjasta sundlaug Íslands“. Rætt er við Dagnýju Pétursdóttur framkvæmdastjóra baðlónsins. Dagný segir að allir sem hafi komið að verkefninu hafi verið staðráðnir í að halda í hefðir baðmenningar Íslendinga og gæða hana lífi á sama tíma og markmiðum um sjálfbærni væri náð.

„Við lögðum upp með að gera þetta að ferðalagi frá því að þú kemur í böðin. Í fyrstu virtust sumar hugmyndirnar ógerlegar, en með sterkri sýn og pínu þrjósku gátum við látið drauma okkar rætast,“ segir Dagný og bætir við að markmiðið hafi verið að vinna hjarta Íslendinga og svo ferðamanna. „Ef þú vinnur hjarta þjóðarinnar veistu að þú hefur upp á eitthvað einstakt að bjóða,“ segir Dagný.

Myndir fyrir sumarlínu Hildar Yeoman tók Saga Sig í Sky Lagoon og er einnig rætt við Hildi í umfjölluninni. Þar segist hún hafa valið lónið vegna þess hvernig línan var hönnuð, en hún ber nafnið Splash og fékk Hildur innblástur frá sjó, sundlaugum og hafmeyjum.

Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Sky Lagoon er til viðtals í greininni.
Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Sky Lagoon er til viðtals í greininni. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert