Stórurð í steikjandi hita

Það er ekki alltaf sem höfundur kemur á stað sem hann hefur ekki komið á áður og stóð Stórurð undir öllum væntingum og gott betur.

Undir hinum hrikalegu og stórbrotnu Dyrfjöllum er Stórurð sem dregur nafn sitt af stórgrýti sem fallið hefur úr fjöllunum frá örófi alda. Kenning höfundar og er hún algjörlega án ábyrgðar eða staðreynda er að loftsteinn hafi komið á þúsunda kílómetra hraða og skollið á Dyrfjöllum og það skýri gatið í Dyrfjöllum og bergið sem liggur neðar í dalnum en eflaust er þetta óskhyggja eftir að hafa horft of oft á Armageddon og fleiri (stór)myndir um hamfarir sem eiga uppruna sinn í geimnum.

Það sem gerir svæðið enn sérstakara er hinn blái litur á vatninu sem myndast hefur milli klettanna og hvernig það rammar inn umhverfið. Það er þó ekki mælt með að taka sundsprett þar nema lesendur séu klárir í um þriggja til fjögurra stiga heitt vatn. 

mbl.is
Loka