Líf og fjör á Holti undir Eyjafjöllum

Valborg Ólafsdóttir tónlistarkona býr ásamt börnum sínum og fjölskyldu á …
Valborg Ólafsdóttir tónlistarkona býr ásamt börnum sínum og fjölskyldu á sveitabænum Holti undir Eyjafjöllum. Ljósmynd/Orri Guðmundsson

Valborg Ólafsdóttir tónlistarkona er býr á sveitabænum Holti undir Eyjafjöllum. Hún starfar sem tónlistarkennari í tónlistarskólanum á Hvolsvelli ásamt því að reka gistiheimili á bænum sínum undir fjöllunum. Gistiheimilið hennar vinsælt svo það hefur verið mikið að gera hjá henni á undanförnum mánuðum. 

„Sumarið er búið að vera alveg frábært! Fullt af ferðafólki og skemmtilegum verkefnum. Sumarleyfi er eitthvað sem erfitt er að láta eftir sér þegar maður er í ferðaþjónustu. Við fjölskyldan höfum reynt að nýta þann tíma aflögu sem við höfum til þess að gera eitthvað skemmtilegt. Við fórum sem dæmi á Kirkjubæjarklaustur eina helgi í sumar og tjölduðum þar, svo kíktum við í síðustu viku vestur á Bolungarvík og dvöldum þar í nokkra daga sem var alveg frábært.“

Hvað fjallar lagið Holiday um?

„Lagið fjallar um það hvað við erum öll farin að þrá að komast í frí. Í þessu kórónuveiru  ástandi sem við erum öll að upplifa finnur maður einhverskonar þrá til þess að komast í burtu og upplifa eitthvað nýtt. Við þekkjum örugglega flest þessa tilfinningu. Við gerðum myndband við lagið og tókum það upp heima á Holti.“

 Breiðskífan Silhouette sem kom út í júlí í sumar er önnur plata tónlistarkonunnar.

„Það eru atriði í myndbandinu sem eru svolítið skrítin en það var einmitt meiningin að hafa þetta svolítið öðruvísi þannig að fólk myndi kannski staldra aðeins við þegar það horfir á. En heildar stemningin í myndbandinu er kannski lýsandi fyrir samfélagið okkar. Enda voru allir þeir sem komu að því að leika annað hvort héðan eða búsettir hér.“

Hvaða fimm staði mælirðu með að landsmenn heimsæki í september á staðnum þar sem þú býrð?

„Undir Eyjafjöllum og í nágrenninu eru ótrúlega margir fallegir staðir sem gaman er að heimsækja allt árið um kring. En ef ég ætti að velja áhugaverðustu fimm staði þá myndi ég velja Nauthúsagil, Gljúfrabúa, Vestmannaeyjar, Sólheimajökul og Skóasafn. 

Nauthúsagil er alveg ótrúlega fallegt gil sem gaman er að ganga inn í með fallegum fossi innst inn í gilinu. Þetta er líka mjög auðveld ganga þannig að það er ekkert mál að hafa krakkana með. Gljúfrabúi er fallegur foss falinn bak við stóran klett. Hann er við tjaldsvæðið að Hamragörðum. Það má sjá þennan foss í myndbandinu okkar. Það tekur einungis 30 mínútur að sigla til Vestmannaeyja frá Landeyjarhöfn og það er ekkert mál að eyða heilum degi í eyjum að gera eitthvað skemmtilegt þar. Sólheimajökull er mjög fallegur þó hann hafi mikið minnkað á undanförnum árum. Við jökulinn er komið stórt lón sem er undurfallegt að mínu mati. Safnið á skógum er mjög merkilegt og alltaf jafn gaman að skoða það. Ég get einnig mælt með því að taka göngutúr um skóginn sjálfan í leiðinni.“

Ertu til í að segja okkur frá besta fríinu sem þú hefur farið í?

„Bestu fríin sem við höfum tekið okkur eru þau sem eru lítið plönuð. Þegar að maður skreppur frá með litlum fyrirvara og getur alveg kúplað sig út. Það þarf ekki að vera langt í burtu eða lengi. Ætli mitt besta frí hafi bara ekki verið í sumarbústað í Skaftártungunni fyrir nokkrum árum síðan, þegar að við skelltum okkur með eins dags fyrirvara.“

Hvað dreymir þig tengt framtíðinni?

„Okkur dreymir um að byggja hér á bænum Holt aðstöðu fyrir listafólk. Afslappað og skapandi umhverfi þar sem listafólk frá öllum heimshlutum geta komið og unnið í sinni list. En annars er alltaf bara draumurinn að geta lifað af því sem maður skapar. Hvort sem það er tónlist eða eitthvað annað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert