Felldu hugi saman á flugvellinum 11. september 2001

Diane og Nick Marson kynntust á flugvellinum í Gander á …
Diane og Nick Marson kynntust á flugvellinum í Gander á Nýfundnalandi 11. september árið 2001.

Nick Marson og Diane Kirschke kynntust á flugvellinum í Gander á Nýfundnalandi hinn 11. september árið 2001 eftir að flugi þeirra frá London til Texas í Bandaríkjunum var beint til Nýfundnalands vegna þess að lofthelgi Bandaríkjanna var skyndilega lokað. 

Marson og Kirschke sögðu CNN Travel söguna af því hvernig þau kynntust á framandi stað á undarlegum tímum í tilefni þess að 20 ár eru liðin frá árásunum á tvíburaturnana í New York og Pentagon. 

Nick var breskur viðskiptamaður á sextugs aldri sem vann hjá stóru alþjóðlegu olíufyrirtæki. Hann var á leið til Houston í Texas í vinnuferð. Diane var bandarísk kona á sjötugs aldri og var á leið heim frá Bretlandi eftir heimsókn til sonar síns sem vann fyrir bandaríska herinn í Bretlandi. 

Eftir um fjóra tíma í loftinu sagði flugstjórinn að vélin yrði að lenda á Nýfundnalandi vegna vandamála í lofthelgi Bandaríkjanna. Fjöldi flugvéla á leið til Bandaríkjanna var vísað annað og var vél þeirra sú 36. til að lenda í Gander af 38 vélum alls. 

Við lendingu var farþegum greint frá atburðunum í New York og segir Nick að það hafi tekið þau langan tíma að meðtaka hvað væri raunverulega í gangi. Árið var auðvitað 2001 og gátu farþegar því ekki lesið fréttir í símanum sínum né hringt heim. Mörg voru ekki með síma meðferðis. 

Diane og Nick hafa verið gift í 19 ár.
Diane og Nick hafa verið gift í 19 ár.

Um 7 þúsund manns voru strönduð á Nýfundnalandi og var komið fyrir í nærliggjandi bæjum. Nick og Diane voru send á sama stað, í stórt samkomuhús í bænum Gambo. Þeim var úthlutað svefnstað og teppum og töluðu þau Nick og Diane fyrst saman þegar þau höfðu fengið teppin. „Ég spurði hana hvort ég mætti sofa í fletinu við hlið hennar og hún sagði „Já, hví ekki?“,“ sagði Nick.

Daginn eftir fóru þau tvö saman út í göngutúr til að fá sér ferskt loft og komast frá stöðugum fréttatímum. 

„Það var of mikið að sitja þarna og horfa á þessar hræðilegu myndir aftur og aftur,“ sagði Diane. Á meðan þau gengu fengu þau áhuga fyrir hvort öðru. Þau fengu sér snarl saman og Diane fór fram á að borga. 

Þau höfðu mikið að tala um. Bæði voru þau fráskilin, áttu uppkomin börn og voru náin fjölskyldum sínum. Um kvöldið var skemmtun í samkomuhúsinu og var þeim vel tekið af heimamönnum sem kynntu þau fyrir sínum hefðum. Nick keypti bjór fyrir Diane og þá voru þau jöfn. 

Á spjalli við heimamenn voru þau spurð hvaðan þau væru. Diane sagðist vera frá Texas en þegar Nick sagðist vera frá Bretlandi urðu heimamenn hvumsa og spurðu hvernig hjónaband þeirra gengi fyrst þau byggju svona langt frá hvort öðru. Það kom þeim báðum að óvart að fólk hefði gert ráð fyrir að þau væru hjón. 

„Viltu verða gift kona?“ spurði Nick Diane, sem svaraði „Af hverju ekki?“.

Farþegarnir 7 þúsund voru strand á Nýfundnalandi í alls fimm daga og eyddu Nick og Diane þeim öllum saman. Þegar kom að fluginu til Texas fundu þau bæði að þau vildu ekki fara frá hvort öðru. Í rútunni á leið á flugvöllinn faðmaði Nick hana og kyssti hana á kollinn. „Ég hugsaði, þetta er tækifærið mitt. Þannig ég bara gaf honum rembingskoss,“ sagði Diane. 

Í vélinni á leið til Texas sátu þau saman í faðmlögum alla leiðina. Nick eyddi næstu dögum í Houston og vann á daginn og sýndi Diane honum borgina á kvöldin. Síðan fór Nick heim til Bretlands en skiptust þau á símanúmerum og tölvupóstföngum fyrir brottför. 

Næsta mánuðinn skiptust þau á löngum tölvupóstum. Í október fann Nick hjá sjálfum sér að hann yrði að hitta hana aftur og komast að því hvað væri raunverulega á milli þeirra. Hann sannfærði vinnuna sína um að hann þyrfti að ganga frá lausum endum í Houston og flaug aftur til Bandaríkjanna. 

Mánuði seinna hringdi Nick í Diane úr bílnum og sagðist vera á skeljunum. Hann bað hana að trúlofast sér og sagði hún já. 

Í mars 2002 flutti Nick endanlega til Texas eftir að hafa fengið leyfi frá fyrirtæki sínu að flytja sig til starfsstöðvarinnar í Houston. Í september 2002 gátu þau loksins gift sig eftir mikið umstang sem fylgir því að giftast manneskju frá öðru landi. Hún tók nafnið hans og í dag eru þau Marson hjónin. 

Þau fóru í brúðkaupsferð til Gander á Nýfundnalandi þar sem þeim var aftur vel tekið af heimamönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert