Clooney ekki spenntur fyrir Portúgal

Amal og George Clooney.
Amal og George Clooney. AFP

Hollywoodstjarnan George Clooney er ekki að fjárfesta í lúxusvillu í Portúgal. Talsmaður stjörnunnar neitaði því á vef The Post. En stjarnan á sem frægt er sumarleyfishöll við Como-vatn á Ítalíu.  

„Ekki satt,“ sagði talsmaður stjörnunnar. „George er ekki að kaupa neinar eignir.“ Fjölmiðlar greindu frá því á dögunum að stjarnan hygðist kaupa land á svæði CostaTerra Golf & Ocean Club sem er staðsett á milli Melides og Comporta í Portúgal. 

Svæðinu er lýst sem Hamptons Portúgals en Hamptons er vinsæll sumarleyfisstaður í Bandaríkjunum á meðal ríka og fræga fólksins. Svæðið er sagt búa yfir afskekktum ströndum og öldum sem þykja góðar til brimbrettaiðkunar. Svæðinu hefur einnig verið líkt við St. Tropez í Frakklandi á 7. áratug síðustu aldar og Ibiza áður en það varð að partíáfangastað. 

mbl.is