Ein jákvæðasta flugfreyja landsins

Kristín Björk er kraftmikil kona og einstaklega brosmild.
Kristín Björk er kraftmikil kona og einstaklega brosmild. Ljósmynd/Aðsend

Kristín Björk Þorvaldsdóttir, flugfreyja hjá Icelandair, er sennilega ein jákvæðasta flugfreyjan í bransanum. Hún hefur starfað hjá Icelandair síðan árið 2006 og segist ekkert elska heitar en að þjónusta fólk í háloftunum, nema jú auðvitað syni sína tvo, þá Sólon Breka og Óliver Mána.

„Ég er svo lánsöm að vera í vinnu sem ég elska. Ég hef fengið að taka þátt í alls konar skemmtilegum og óheðfbundnum verkefnum á vegum vinnunnar síðustu ár og fengið að ferðast um allan heiminn. Ég elska það og finnst ég ofboðslega heppin,“ segir Kristín.

Kristín lýsir sjálfri sér sem ósköp venjulegri konu sem er þakklát fyrir góða heilsu, elskar kántrítónlist og kúrekaskó og hefur tekið meðvitaða ákvörðun um að lifa lífinu til fulls og vera svokölluð já-manneskja. Þannig lendi hún í óvæntum ævintýrum og fái tækifæri til þess að upplifa alls kyns óvenjulega hluti.

Já-manneskjan lendir oft í óvæntum uppákomum.
Já-manneskjan lendir oft í óvæntum uppákomum. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef tekið ákvörðun um að vakna alltaf glöð á morgnanna. Býð daginn alltaf velkominn. Lífið er ein stór ákvörðun og ég hef tileinkað mér að segja já við flestu sem lífið býður upp á. Með því að gera það hef ég átt svo skemmtileg ár og hefur árið í ár staðið upp úr. Það hefur einkennst af miklum prakkaragangi. Ég hef verið mikið í útivist og hef gaman að því að vera úti í öllum veðrum hvort sem það er til að príla upp á hóla og fjöll eða ganga um í Kópavogsdalnum. Ég gekk meðal annars á Kvennadalshnjúk í vor, með 125 öðrum konum, í -25 stiga frosti. Það var geggjuð upplifun.“

Kristín ásamt 150 öðrum konum í göngu á Kvennadalshnjúki.
Kristín ásamt 150 öðrum konum í göngu á Kvennadalshnjúki. Ljósmynd/Aðsend

Góð tilfinning að komast aftur til starfa

Líkt og flestum er orðið kunnugt um var heimsbyggðin á hliðinni síðasta vetur og því lítið um flugsamgöngur á milli landa. Kristín missti vinnuna tímabundið á meðan veirutíminn var sá skæðasti og samgöngumál í lamasessi. Í sumar byrjun jók Icelandair flugferðum til nokkurra áfangastaða með tilliti til ferðatakmarkana og sóttvarnarkrafa hér heima og í öðrum löndum.

„Það var óneitanlega geggjuð tilfinning að byrja að vinna aftur,“ segir Kristín. ,,Að fá að bjóða fólk velkomið um borð og að fá að segja í kallkerfið: Góðir farþegar, verið velkomin heim. Það er ólýsanleg tilfinning.“

Hvernig er ferðaupplifun fólks í samræmi við sóttvarnarreglur?

„Langflestir eru pollrólegir yfir þessu öllu saman og koma vel undirbúnir. Við höfum öll þurft að tileinka okkur ákveðna aðlögunarfærni á þessum tíma. Það þarf að fylla út alls konar pappíra fyrir flug og næstu áfangastaði. Ef eitthvað gleymist þá erum við með þar tilgerða pappíra um borð og alltaf reiðubúin að aðstoða fólk. Það er enginn að fetta fingur sína út í þetta fyrirkomulag. Þetta er nýr veruleiki í okkar ferðalögum sem við þurfum að laga okkur að.“

Brosmildar flugfreyjur. Kristín ásamt samstarfskonu sinni hjá Icelandair.
Brosmildar flugfreyjur. Kristín ásamt samstarfskonu sinni hjá Icelandair. Ljósmynd/Aðsend

Kristín segist þrá það að geta átt aftur í nánari samskiptum við farþega Icelandair líkt og áður hafi tíðkast. Hlýtt handaband og innilegt bros sé stór partur af starfinu. Bros innan grímunar geti tekið sjarmann af mannlegum samskiptum.

„Ég hlakka mikið til þegar við þurfum ekki lengur að vera með grímur um borð og getum átt nánari samskipti hvort við annað. Við erum mjög meðvituð um sóttvarnir um borð jafnt sem okkar persónubundnu smitvarnir. Það kemur ekkert í stað hlýs handabands og augnsambands, að brosinu ólöstuðu því það getur verið svo áhrifaríkt að brosa.“

Kristín hefur ekkert ferðast utan landsteinana á eigin vegum síðan …
Kristín hefur ekkert ferðast utan landsteinana á eigin vegum síðan heimsfaraldurinn hófst en hefur notið þess að ferðast innanlands. Ljósmynd/Aðsend

Þéttsetnar vélar og allt í áttina

Í hvers konar ferðalög er fólk helst að fara um þessar mundir?

„Vélarnar okkar eru þéttsetnar þessa dagana. Fólk er farið að ferðast aftur í ýmsar erindagjörðir. Flestir eru að fara í langþráð frí til framandi slóða. Oft frí sem er búið að fresta nokkrum sinnum vegna ástandsins. Maður hittir svo mikið af áhugaverðu fólki. Sumir eru að ferðast vegna ástvinamissis á meðan aðrir eru að ferðast vegna vinnu og svo framvegis. Einn vinur minn fór á sinn fyrsta viðskiptafund í eitt og hálft ár erlendis nú á dögunum. Það finnst mér mjög jákvætt og gefur okkur von um fyrra horf. Það er mikil spenna í loftinu og hana upplifir maður í gegnum farþegana.“

Hvernig er staðan úti í heimi?

„Á þeim áfangastöðum sem við fljúgum til er allt að færast í eðlilegt horf. Það er grímuskylda í mörgum verslunum en þó er það valkvætt mjög víða. En til dæmis í New York þá þarftu að sýna bólusetningarskírteini eða vottorð vegna fyrra smits, vottorð úr mótefnamælingu, ef þú ætlar að setjast inn á veitingastað. Þetta er jákvæð þróun að mínu mati og vonandi vísir að því að við getum fljótt farið að ferðast til Bandaríkjanna aftur.“

Matargat sem hreyfir sig mikið

Kristín segist ekki hafa ferðast neitt á eigin vegum til útlanda frá því heimsfaraldurinn tók yfir, einungis innanlands. Hún á sér marga uppáhalds staði og segir hún það misjafnt hvaða borg sé í uppáhaldi hverju sinni. New York sé þá alltaf ofarlega á lista.

„Borgin iðar af mannlífi allan sólarhringinn. Þar finnurðu líka allt milli himins og jarðar. Það er frábært að leigja sér hjól og þeytast um grænar hjólagötur í Central Park. Að labba High Line er líka alveg geggjað, ég mæli hiklaust með því fyrir þá sem leggja leið sína til New York. Í New York er endalaust úrval af fallegum veitingastöðum en minn uppáhalds veitingastaður er Le Buvette í West Village. Mér finnst lang skemmtilegast að blanda saman hreyfingu og mat. Ég elska að hreyfa mig en er líka algjört matargat og á það til að hreyfa mig mikið og launa mér erfiðið með því að njóta vel í mat og drykk eftir á.“

Kristín segist vera matargat sem leggur mikið upp úr eldamennsku …
Kristín segist vera matargat sem leggur mikið upp úr eldamennsku sem gerð er frá grunni. Ljósmynd/Aðsend

Á ferðalagi sínu um landið í sumar uppgötvaði Kristín margar faldar perlur. Það var þó aðeins einn staður sem heillaði hana alveg upp úr skónum.

„Þakgil er algjörlega einstakur staður. Þar er hægt að hjóla eða fara í góðar göngur. Svo er ævintýralega rómantískt að borða í hellinum þar. Ég hlakka til að ferðast meira um landið okkar og heimsækja fleiri fallega staði hvort sem ég geri það gangandi, hjólandi, syndandi eða skíðandi – hver veit upp á hverju ég tek næst,“ segir þessi kraftmikla og jákvæða kona.

Kántrítónlist og kúrekaskór eru Kristínu að skapi. Hér spilar hún …
Kántrítónlist og kúrekaskór eru Kristínu að skapi. Hér spilar hún á gítar úti í náttúrunni. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is