Ekki gera þessi mistök í Parísarferðinni

Eiffel-turninn í París.
Eiffel-turninn í París. AFP

París er einstök borg og Parísarbúar eru einstakir. Á ferðalagi um Parísarborg er mikilvægt að vera með nokkur atriði á hreinu, bæði til að allt gangi smurt fyrir sig, og svo þú lítir út eins og þú sért alvöru ferðalangur. 

Travel + Leisure tók saman nokkur ráð fyrir þau sem vilja slá í gegn í París. 

Bíða eftir vatni og reikningnum þegar þú ferð út að borða

Frakkar elska að borða og njóta matarins. Þeir taka sér góðan tíma í matmálstíma og því þarftu ekki að búast við því að diskarnir séu teknir um leið og þú klárar af disknum. Ef þú vilt vatn fyrir eða með matnum þarftu að biðja sérstaklega um það, sérstaklega ef þú vilt bara krana vatn. Þá koma þjónar ekki með reikninginn um leið og þú klárar heldur þarftu að biðja um hann. 

Að segja ekki Bonjour og Merci nógu oft

Parísarbúar eru kurteisir og það skalt þú líka vera. Að bjóða góðan daginn, bonjour, er lykilatriði í hvert skipti sem þú ferð inn í verslun eða á veitingastað. Það er einnig mælt með því að ná augnsambandi við afgreiðslufólk. Mundu svo að þakka fyrir þig með orðunum merci í lokin. 

Gleyma að bóka borð fyrir fram 

Ef þú ert með ákveðna veitingastaði í huga er alltaf gott að kynna sér hvort þú þurfir að bóka borð fyrir fram. Á sumum stöðum er nóg að bóka daginn áður, á öðrum er gott að athuga hvort bóka þurfi borð með meiri fyrirvara.

Louvre í París.
Louvre í París. Ljósmynd/Pexels/Silvia

Að fara í ágúst eða desember

Ef þú ert á leið til Parísar með sérstakan Michelin-stjörnu veitingastað í huga eða virkilega vinsælan veitingastað í huga, reyndu að sleppa því að fara til borgarinnar í ágúst eða desember. Á þeim tíma fara margir í sumar- eða jólafrí, svo þú gætir komið að lokuðum dyrum. Þessir mánuðir eru einnig almennt mun rólegri í borginni og margar verslanir gætu verið lokaðar. 

Að biðja um baguette ekki tradition 

Frakkland er þekkt fyrir baguette og því ekkert klassískara en að kaupa sér dýrindis brauð í heimsókn sinni til landsins. Ef þú ert algjör sælkeri og langar í besta brauðið er frekar mælt með því að panta tradition ekki baguette. Baguette er gert úr venjulegu geri og er alveg hvítt. Tradition er hins vegar úr súrdegi og því mun gómsætara. 

Snerta án þess að spyrja

Á ferðalagi í skugga heimsfaraldurs ætti það að vera innprentað hjá flestum okkar að snerta ekki hluti af óþarfa. Fyrir heimsfaraldur er það einnig talin almenn kurteisi að snerta ekki hluti á mörkuðum og í verslunum án þess að spyrja verslunarmanninn hvort það sé í lagi. 

Áin Signa rennur í gegnum París.
Áin Signa rennur í gegnum París. Ljósmynd/Pexels/Kenrick Baksh
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert