Airbnb sniðinn þrengri stakkur í Barselóna

Nú er óheimilt að leigja út herbergi í tímabundna leigu …
Nú er óheimilt að leigja út herbergi í tímabundna leigu í Barselóna. Ljósmynd/Pexels/Aleksandar Pasaric

Borgaryfirvöld í Barselóna á Spáni hafa hert reglur um útleigu á Airbnb. Reglurnar tóku gildi 6. ágúst síðastliðinn og samkvæmt þeim er óheimilt að leigja herbergi út í tímabundna leigu. 

Hinar nýju reglur hafa mikil áhrif á þau sem kjósa að leigja stök herbergi út til ferðamanna á leigumiðlunarsíðunni Airbnb. Enn er heimilt að leigja út heilar íbúðir svo lengi sem leigusalinn hefur til þess leyfi. 

Heitar umræður hafa skapast í Barselóna um hvernig megi styðja við efnahagslífið í borginni og hvernig megi verja lífsgæði borgarbúa þegar fjöldi ferðamanna jókst með hverju árinu fyrir heimsfaraldur. 

Borgaryfirvöld segja bestu leiðina til að takast á við húsnæðisvandann vera að takmarka einkaútleigu á herbergjum og íbúðum. Margir hafa gagnrýnt þessa leið stjórnvalda og segja háar sektir fyrir ólöglega útleigu ekki vera leiðina. 

„Við erum ánægð að margir vilji koma til Barselóna og njóta borgarinnar, því við elskum hana og við viljum deila henni með öðrum. En við þurfum reglur og við þurfum jafnvægi,“ sagði Janet Sanz, aðstoðarborgarstjóri Barselóna. „Fólk í Barselóna getur enn leigt út herbergi til erlends námsmanns í eitt ár,“ bætti Sanz við. 

Talsmenn Airbnb segir að útleiga íbúða eða herbergja skaði ekki borgina. Um helmingur leigusala á Airbnb í Barselóna byggir afkomu sína á tekjum af útleigu á Airbnb. Stjórnendur leigumiðlunarvefjarins vonast til þess að geta unnið með borgaryfirvöldum að sátt í málinu.

New York Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert