Harry og Meghan í Frelsisturninum

Harry og Meghan ásamt Bill de Blasio borgarstjóra New York.
Harry og Meghan ásamt Bill de Blasio borgarstjóra New York. AFP

Harry prins og Meghan eru nú í New York þar sem þau munu koma fram á góðgerðarviðburðinum Global Citizen Live á laugardaginn.

Ferðina ætla þau hins vegar að nýta vel en þau vörðu fimmtudagsmorgni í Frelsisturninum og hittu borgarstjóra og ríkisstjóra New York, Bill de Blasio og Kathy Hochul. Ekki er vitað hvað fór þeim á milli.

Þetta er fyrsta sameiginlega ferð Harry og Meghan síðan þau sögðu upp opinberum skyldustörfum í þágu bresku krúnunnar og fluttu til Kaliforníu. Börnin Archie og Lilibet eru ekki með í för heldur dvelja þau heima í Kaliforníu. 

Hjónin vöktu athygli fyrir látlausan og smekklegan klæðaburð en þau voru dökkklædd frá toppi til táar og þótti það hæfa tilefninu vel þar sem Frelsisturninn var reistur til að minnast hinna hræðilegu atburða þann 11. september 2001. Mörgum þótti Meghan hins vegar óvenju mikið klædd miðað við veður en í New York er hitastigið í kringum 26 gráður þessa dagana. Rúllukragapeysa og ullarkápa var því kannski fullmikið af hinu góða.

Hjónin fóru í skoðunarferð um turninn og umhverfis hann og gáfu sér meðal annars góðan tíma til þess að skoða minnismerki með nöfnum þeirra sem létust í árásinni. Eftir heimsóknina héldu þau til höfuðstöðva Sameinuðu þjóðanna.

Ríkisstjórinn Kathy Hochul, Meghan og Harry prins, Bill De Blasio …
Ríkisstjórinn Kathy Hochul, Meghan og Harry prins, Bill De Blasio borgarstjóri, Chirlane McCray eiginkona hans og Dante de Blasio sonur þeirra. AFP
Hjónin settu upp grímur innandyra.
Hjónin settu upp grímur innandyra. AFP
mbl.is